Það er ekki á hverjum degi sem nýjar badmintondeildir eru stofnaðar en sá ánægjulegi atburður átti sér stað á dögunum þegar Helgi Jóhannesson landsliðsþjálfari stofnaði badmintondeild innan raða Ungmennafélagsins Tindastóls á Sauðárkróki.
Aðdragandann má rekja til þessar þegar Helgi Jóhannesson, aðalþjálfari Tindastóls og landsliðsþjálfari fluttist norður með fjölskyldu sína en dætur hans höfðu þá æft badminton í nokkur ár. Áhuginn var mikill og dapurleg tilhugsun að þurfa að leggja spaðann á hilluna svo leitað var samstarfs við sveitarfélagið Skagafjörð sem úthlutaði Helga dýrmætum tíma í þéttsetnu íþróttahúsinu. Áhuginn var mikill hjá ungum Skagfirðingum og nú æfa um 14 krakkar badminton tvisvar í viku.
„Það er frábært að geta stuðlað með beinum hætti að útbreiðslu badmintoníþróttarinnar með því að stofna deild hér á Sauðárkróki.“ segir Helgi. „Okkur hefur verið vel tekið alls staðar þar sem við höfum komið, hvort sem er af iðkendum, foreldrum, bæjaryfirvöldum eða forsvarsmönnum Tindastóls og kann ég þeim bestu þakkir fyrir frábærar móttökur. Starfið hefur farið vel af stað og ég afskaplega þakklátur fyrir þann tíma sem hefur verið úthlutað í íþróttahúsinu, krakkarnir eru mjög duglegir, mæta vel og taka miklum framförum. Vonandi getum við svo farið að skipuleggja keppnisferðir í opin unglingamót þegar það fer af stað aftur. Það verður gaman að mæta með krakkana og halda uppi merkjum Tindastóls á badmintonvellinum“
Comments