Æfingabúðir Afrekshóps fóru fram í TBR helgina 11.-13. febrúar s.l.
Helgi Jóhannesson landsliðsþjálfari boðaði Afrekshóp á æfingahelgi og mættu hátt í 40 leikmenn til leiks úr hópum U15, U17, U19 og A hópi. Helgin hófst á sameiginlegri æfingu á föstudagskvöldinu, tveimur á laugardegi og tveimur á sunnudegi. Markmiðið með þessum æfingabúðum var að gefa stórum hópi leikmanna tækifæri á að sýna sig fyrir landsliðsþjálfara sem stendur nú frammi fyrir því að fara skera niður hópana fyrir komandi verkefni.
Föstudagsæfingin var með óvenjulegu sniði þar sem markmiðið var að hrista hópinn saman og gera eitthvað skemmtilegt. Hópnum var skipt upp í tvö lið og haldin liðakeppni. Spilaðar voru allskonar útfærslur af óhefðbundnum badmintonleikjum. Einnig var hópunum boðið í HotFit tíma í Hreyfingu sem féll vel í kramið hjá leikmönnum og þjálfurum sem tóku einnig þátt.
Yfir helgina var unnið með ákveðið þema á badmintonæfingunum og var það þema varnarleikur. Áhersla var lögð á að lækka þyngdarpunktinn til að bæta spyrnuna út frá spilamiðjunni. Næstu verkefni á vegum BSÍ eru áætluð eftir Meistaramót Íslands og verður tilkynnt um þau á næstu vikum. Við þökkum fyrir góða helgi og hlökkum til næstu verkefna.
Bestu kveðjur,
Anna Margrét íþróttastjóri
Comments