23. - 27. júní var haldið badmintonnámskeið í Hrísey. Harpa Hua Zi Tómasdóttir iðkandi hjá Hamri í Hveragerði dvelur í Hrísey meira og minna yfir sumartímann en þar hefur ekki verið skipulagt badmintonstarf en á veturna koma fullorðnir og leika sér að spila saman. Hún og foreldrar hennar stóðu þessvegna fyrir skemmtilegri kynningu á badmintoni fyrir eyjaskeggja einskonar fimm daga örnámskeiði í íþróttahúsinu sem hefur að geyma einn badmintonvöll.
Badmintondeild Hamars gaf því Ungmennafélaginu Narfa nokkra spaða og plastkúlur og BSÍ gaf sömuleiðis fjaðrabolta. Jara Sól frá Narfa sá um hópinn en leiðbeinendur voru ungir krakkar úr Hamri, þau Harpa og Úlfur Þórhallsson og krakkar úr TBR Hrafnhildur og Óðinn Magnúsarbörn. Krakkarnir útbjuggu sjálf prógram fyrir hvern dag með æfingum og spurningum þar sem þau fræddu krakkana um badmintoníþróttina. Verðlaun voru svo veitt í lokin fyrir að taka vel eftir og standa sig vel. Leikgleðin var mikil og sýndir voru miklir taktar og fannst þeim mikilvægt að hafa gaman og gefast aldrei upp.
Námskeiðinu lauk svo með ísferð á traktorskerru um eyjuna. Hríseyjakrakkarnir voru himinlifandi með þetta framtak og eiga krakkarnir öll hrós skilið
Comments