Kári spilaði fyrsta leik sinn á Evórpuleikunum í gærkvöldi þar sem hann mætti Christian Kirchmayr frá Sviss. Christian er í 144.sæti heimslistans en Kári situr í 142.sæti og var því viðbúið að leikurinn yrði jafn og spennandi sem hann var.
Atli Jóhannesson aðstoðarlandsliðsþjálfari sagði þetta eftir leikinn.
"Leikurinn for fram í Falcon Club og aðstaðan þar er virkilega góð og að sögn Kára gott að spila í höllinni. Leikurinn fór fram klukkan 22 (19 á íslenskum tíma) og því hefur allur undirbúningur hjá okkur verið þannig háttað að við reynum að seinka öllu eins og hvenær er farið að sofa og hvenær við borðum kvöldmat. Kári spilaði fyrstu lotuna mjög vel og flest allt gekk upp og lotan vannst frekar sannfærandi. Kári spilaði lotuna eins og hann vill spila og náði að sækja meira en andstæðingurinn og notaði mörg af sínum bestu höggum. Hann lagði spilið þannig upp að reyna fá hraðabreytingar í spilið og nota feluhögg sem gekk mjög vel að auki sem hann gerði fá mistök. Því miður náði Kári ekki að fylgja þvi eftir og lenti 11-3 undir i annarri lotu. Þá spilaði andstæðingurinn mjög vel, gerði fá mistök og Kári fór að lyfta mikið og spilaði of stutt og þvi auðvelt fyrir andstæðinginn að sækja. Þess má geta að kúlurnar voru mjög hægar og það gerði leikinn ögn erfiðari sérstaklega að finna rétta lengd. Það komu lika nokkur auðvelt mistök i byrjun lotunnar og Kári náði ekki að vinna upp forskot andstæðingsins. Seinni parturinn af lotunni var samt mun skárri en þá reyndi Kári að spila meira netspil og fékk þá fleiri sóknarfæri og spilið var betra en lotan tapaðist 21-17. Oddalotan var mjög jöfn fra byrjun til enda. Kári náði smá forystu i lotunni og leiddi 11-9. Við töluðum um að reyna spila meira netspil og reyna fá aftur hraðabreytingar í spilið sem Kári gerði svo vel i fyrstu lotunni og gekk það ágætlega. Þá kom góður partur hja Svisslendingnum og hann skoraði fjögur stig i röð og komst i 13-11. Það sem eftir lifði leiks var andstæðingurinn alltaf með forystu sem Kára tókst ekki að minnka og lotan tapaðist 21-18 og þar með leikurinn. Með smá heppni hefði þetta geta farið öðruvisi en þvi fór sem fór. Í síðasta hluta leiksins vantaði aðeins upp á gæðin i höggunum og fjölbreytileika í sóknarhöggin. Kári var mjög svekktur að hafa tapað þessum leik en það er bara hægt að horfa fram á við og reyna vinna næsta leik".
Annar leikur Kára í D-riðli fer fram í dag gegn Brice Leverdez kl 19:00 að íslenskum tíma en Brice er með fjórðu röðun inn í mótið en hann er í 33.sæti heimslistans.