Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson eru komnir í undanúrslit í tvíliðaleik karla á RSL Lithuanian 2019. Í 16 liða úrslitum mættu þeir Gijs Duijs og Brian Wassink frá Hollandi og unnu Davíð Bjarni og Kristófer 21-17, 17-21 og 21-12. Í 8 liða úrslitum mættu þeir svo norðmönnunum Magnus Christensen og Vegard Rikheim og var þessi leikur mjög spennandi. Davíð og Kristófer unnu fyrstu lotuna 21-12 en töpuðu þeirri næstu 15-21. Oddalotan var æsispennandi en henni lauk með sigri íslensku strákanna 22-20 og eru þeir því komnir í undanúrslit en þau fara fram á morgun. Þar munu þeir mæta Emil Lauritzen og Mads Muurholm frá Danmörku en þeir eru með fyrstu röðun inn í mótið en Davíð Bjarni og Kristófer eru með fjórðu röðun.
Daníel Jóhannesson og Jónas Baldursson léku einnig í dag í 16 liða úrslitum en urðu að játa sig sigraða gegn Joachim Anneberg og Rasmus Espersen frá Danmörku 21-15 og 22-20.
Þá léku einnig í dag Arna Karen Jóhannsdóttir og Sigríður Árnadóttir í tvíliðaleik kvenna. Í 16 liða úrslitunum mættu þær Christinu Busch og Amalie Schulz frá Danmörku en þær eru með aðra röðun í mótinu og þykja því sigurstranglegar. Lauk leiknum með sigri Christinu og Amalie 21-11 og 21-13.
Hægt er að sjá öll nánari úrslit frá mótinu með því að smella hér.