top of page
Search
bsí

Kári endaði í 2.sæti á Uganda International


Kári Gunnarsson tók þátt í alþjóðlegu móti í Úganda dagana 21. - 24. febrúar. Mótið er hluti af International Series mótaröðinni og gefur stig á heimslistann.

Kári átti mjög gott mót þrátt fyrir að vera veikur allan tímann á meðan dvöl hans var í Úganda. Kári var orðinn veikur þegar hann flaug til Úganda en honum var raðað nr.6 inn í mótið og sá á mótaskránni að með góðu spili ætti hann góða möguleika á að fara langt í mótinu en leist illa á blikuna á að geta keppt þegar hann kom út. Kári ákvað þó að láta á það reyna að spila fyrsta leikinn þrátt fyrir talsverð veikindi og fór því með því hugarfari að reyna að vera mjög hugmyndaríkur í spili sínu.

Kári var undirbúinn undir það að aðstæður í Afríku gætu verið erfiðar, boltarnir sem leikið var með voru mjög hraðir enda heitt í höllinni og einnig gat verið smá vindur sem blés inn um höllina.

Kári mætti Joel König í 32 manna úrslitum og vann Kári þann leik örugglega 21 - 9 og 21 - 17. Í 16 manna úrslitum mætti hann Batdavaa Munkhbat frá Mongólíu og vann Kári þann leik í oddalotu 21 - 23 , 21 - 14 og 21 - 15. Í 8 manna úrslitum mætti Kári, Anuoluwapo Juwon Opeyori frá Nígeríu en hann var með fjórðu röðun inn í mótið. Kári þurfti einnig oddalotu í þeim leik til að vinna 21 - 14, 15 - 21 og 21 - 18. Í undanúrslitum lék Kári svo við Bahaedenn Ahmad Alshanrik frá Jórdaníu en hann er í 124.sæti heimslistans en Kári er í 168.sæti listans. Kári vann Bahaedenn í tveimur lotum 22 - 20 og 21 - 15.

Úrslitaleikurinn var minnisverður, ekki bara útaf spilinu heldur líka sökum þess að rétt áður en leikurinn átti að hefjast fór rafmagnið af höllinni og ekki var hægt að kveikja ljósin aftur fyrr en 6 klst. síðar. Leikurinn fór svo að lokum í gang kl 22:30 en andstæðingur Kára var efnilegur indverji Rahul Bharadwaj B.M. Leikurinn var mjög jafn en Kári vann fyrstu lotuna 24 - 22 og byrjaði mjög vel í annarri lotunni líka. Kári komst í 20 - 19 og átti möguleika á að klára leikinn og vinna mótið en Rahul vann stigið og að lokum lotuna 20 - 22. Þurfti því oddalotu til að skera úr um úrslit og komst Rahul yfir 8 - 0 í byrjun hennar en Kári barðist vel og náði að komast yfir í stöðunni 17 - 16 en tapaði svo næstu fimm stigunum og því 2.sætið raunin hjá Kára á þessu móti.

Árangurinn kemur honum í betri stöðu fram að Ólympíuleikum þar sem hann mun færast upp um líklega 25.sæti og vera í kringum 144.sæti heimslistans þegar hann verður birtur næst.

Nánari úrslit frá mótinu má finna með því að smella hér.


177 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page