Evrópumeistaramót U19 ára hófst í gær. Eysteinn Högnason spilaði þá einliðaleik gegn Amir Khamidulin frá Rússlandi í fyrstu umferð einliðaleiks karla. Fór svo að Eysteinn tapaði leiknum 21 - 10 og 21 - 15. Einar Sverrisson og Þórunn Eylands Harðardóttir spiluðu einnig í gær í tvenndarleik. Mættu þau Mykhaylo Makhnovskiy og Anastasiyu Prozorovu frá Úkraínu. Unnu Mykhaylo og Anastasiya 21 - 11 og 21 - 14.
Í morgun hófu Eysteinn Högnason og Una Hrund Örvar leik sinn gegn Daniel Popescu og Loredanu Lungu frá Rúmeníu. Áttu Eysteinn og Una á brattann að sækja og lauk leiknum með tapi fyrir Daniel og Loredanu 21 - 10 og 21 - 7.
Eysteinn Högnason og Una Hrund Örvar
Halla María Gústafsdóttir spilaði einliðaleik kvenna og mætti hún Portúgölsku stelpunni Claudiu Lourenco. Sigraði Claudia Höllu nokkuð örugglega 21 -7 og 21 - 6.
Þórunn Eylands Harðardóttir tók einnig þátt í einliðaleik kvenna en hún mætti Katharinu Fink frá Ítalíu. Endaði leikurinn með sigri Katharinu 21 - 10 og 21 - 11.
Þórunn Eylands Harðardóttir ásamt Tinnu Helgadóttur landsliðsþjálfara
Þrír íslenskir leikir eiga svo eftir að hefjast í dag. Þórunn og Una spila tvíliðaleik kvenna, Brynjar Már spilar tvíliðaleik karla ásamt Piotr Cunev frá Moldavíu, Eysteinn og Einar spila einnig í tvíliðaleik karla nú seinnipartinn.
Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu á youtube rás Badminton Europe.
Einnig er hægt að skoða öll nánari úrslit og tímasetningar einstakra leikja með því að smella hér.