U19 ára landslið Íslands lék fyrsta leik sinn á Evrómeistaramóti U19 ára landsliða gegn Lettlandi í dag. Lauk leiknum með 3 - 2 sigri Letta en spilaður er einn leikur í hverri grein.
Eysteinn Högnason (fremri) og Brynjar Már Ellertsson (aftari)
Eysteinn Högnason og Una Hrund Örvar spiluðu tvenndarleik gegn Ardis Daniels Bedritis og Liönu Lencevica. Ardis og Liana unnu leikinn í tveimur lotum 21 - 16 og 21- 15. Einliðaleik karla lék Einar Sverrisson gegn Rihards Valters Blaubergs og sigraði Einar 23 - 21 og 21 - 13.
Einliðaleik kvenna spilaði Þórunn Eylands Harðardóttir og þurfti hún að játa sig sigraða 21 - 15 og 21 - 14.
Ísland vann svo tvíliðaleik karla en fyrir Íslands hönd spiluðu Eysteinn Högnason og Brynjar Már Ellertsson. Léku þeir gegn Ardis Daniels Bedritis og Rihards Valters Blaubergs og unnu þeir leikinn 21 - 18 og 21 - 18. Síðasti leikur viðureignarinnar var tvíliðaleikur kvenna sem Þórunn Eylands Harðardóttir og Halla María Gústafsdóttir spiluðu. Spiluðu þær gegn Unu Berga og Liönu Lencevica. Unnur Lettar þann leik örugglega 21 - 5 og 21 - 11 og tryggðu þar með Lettum sigur.
Tinna Helgadóttir landsliðsþjálfari hafði þetta um leikinn að segja
"Við mættum Lettlandi á HM unglinga fyrir 2 árum þar sem við töpuðum naumlega 3-2 þannig að við vonuðum að við gætum unnið leikinn í dag. Við spiluðum fínan landsleik, en töpuðum því miður tvenndarleiknum, sem var afgerandi. Eftir á að hyggja hefði ég átt að stilla spilurunum aðeins öðruvísi upp, þá held ég að við hefðum tekið leikinn, en það er alltaf ákveðið lottó að stilla liðinu upp. Í þetta skiptið hitti ég ekki á rétta samsetningu og tel það hafa kostað okkur sigurinn".
Ísland leikur annan leik sinn í riðlunum á morgun gegn Slóvakíu og hefst sá leikur kl 09:30 að íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu á Youtube rás Badminton Europe - smellið hér.
Öll nánari úrslit og tímasetningar einstakra leikja á Evrópumeistaramóti U19 ára landsliða má finna með því að smella hér.