Kristján Daníelsson, formaður Badmintonsambands Íslands, fór nú um helgina á ársþing Evrópska Badmintonsambandsins. Jafnframt því að sitja þingið fundaði Kristján með formönnum annarra landa sem teljast til smáþjóða. Rætt var um tillögu sem kom frá Kýpur þess efnis að halda smáþjóðleika í badmintoni. Eru það 12 lönd sem koma til greina í þessa leika. Framkvæmdastjóri evrópska badmintonsambandsins sat einnig fundinn og sagði frá því að evrópska badmintonsambandið myndi styðja þetta verkefni. Starfshópur með formönnum þriggja landa var stofnaður. Undirbúningur er hafinn og stefnt er að því að fyrstu smáþjóðleikarnir í badmintoni verði haldnir 2020.