Laufey Sigurðardóttir hlaut nú fyrir skemstu réttindi til að vera yfirdómari (Referee) á alþjóðlegum mótum innan Evrópu. Er hún fyrsti íslenski dómarinn sem nær þessum merka áfanga. Hér fyrir neðan fer Laufey lauslega yfir dómaraferilinn sinn og hvað þarf til að öðlast þessi réttindi.
"Ég byrjaði að dæma um 2000, en frá 2002 hef ég verið á fullu í þessu og dæmt á flestöllum mótum á Íslandi, á hverjum vetri, síðan. Ég byrjaði að fara
erlendis að dæma 2004, fyrst á Austrian International 2004. Ég var þá komin með réttindi til að dæma á öllum mótum í Evrópu. Ég fór á dómaranámskeið, á vegum Badminton Europe, 2005 í Thessaloniki, Grikklandi og dæmdi svo Helexpo Thessaloniki World Grand Prix 2005 í kjölfarið. Það gekk mjög vel og vildi BE (Badminton Europe) að ég færi í mat sem BE dómari en til þess að halda þeim réttindum þarf að fara á nokkur mót á ári erlendis og ég hafði ekki fjárráð til þess svo ég afþakkaði það. Í gegnum árin þá hefur BE nokkrum sinnum ítrekað boðið mér að fara í BE dómara mat en ég hef alltaf afþakkað, af sömu ástæðum.
Ég hef farið víða erlendis að dæma, oftast til Noregs og dæmt á Norwegian International en einnig t.d. á Italian International 2011 og Irish Open 2014.
Ég hef dæmt á Iceland International, sem dómari, frá 2004. Þá hef ég dæmt tvisvar í Evrópukeppni landsliða, fyrst á Helvetia Cup í Laugardalshöll í Reykjavík, í Evrópukeppni B landsliða í janúar 2007 (þar sem Íslenska liðið vann B keppnina) og í TBR árið 2014.
2016 var mér boðið á BEC Referees Course í Belgíu. Ég þáði það þar sem mér fannst spennandi að takast á við ný og krefjandi verkefni.
Á námskeiðinu voru 12 þátttakendur, frá hinum ýmsu Evrópulöndum og var það mjög krefjandi en skemmtilegt. Í lokin var skriflegt próf.
BE sendi mér svo þau skilaboð að ég hefði staðið mig vel á námskeiðinu og á prófinu og ég var beðin um að taka að mér fyrsta verkefnið sem Deputy Referee (aðstoðaryfirdómari) á Iceland International 2017. Þá var talað um að ég ætti að fara á U17 eða U19 mót sem Deputy Referee eða Referee seinnipart 2017 og færi svo í assessment (mat) árið 2018.
Árið 2017 var ég svo Deputy Referee, í fyrsta sinn, á Iceland International, sem gekk mjög vel. Ég fór svo í október 2017 á FZ Forza Finnish Junior 2017, sem Deputy Referee en Referee mótsins, bauð mér að vera Referee mótsins, til að æfa mig, sem ég þáði. Það gekk mjög vel, var mikil og góð reynsla en þarna voru tveir Referees frá Finnlandi sem kenndu mér mjög mikið og hjálpuðu.
Ég fékk svo að vita í lok árs 2017 að ég yrði yfirdómari á Yonex Slovak Open 2018, 27 feb.-3.mars, þar sem ég yrði metin af assessor/matsmanni frá Badminton Europe.
Ég fór strax að undirbúa mig fyrir mótið og næstu mánuði fram að móti var ég í þó nokkurri undirbúningsvinnu en þó sérstaklega síðasta mánuðinn. Þetta var mikil vinna á köflum, mikil samskipti við mótshaldarana og einnig við Badminton Europe. Síðan nokkuð óvænt fékk ég þau skilaboð, eftir að búið var að draga í mótið, að ég yrði að tímasetja það, frá a – ö, þ.e. alla leiki ofl. og skila því frá mér helst innan sólahrings. Það var rosalegt, mikið álag og vinna en einnig mikil og góð reynsla. Ég fór svo til Slóvakíu, tveimur dögum fyrir mótið og fór yfir allt með mótshöldurunum og gekk frá lausum endum. Ég hélt fundi fyrir þjálfara og dómara, kvöldið fyrir mótið, sem gekk mjög vel.
Mótið sjálft gekk mjög vel og ekkert óvænt eða óviðráðanlegt kom upp á.
Á síðasta degi mótsins, milli undanúrslita og úrslita settist matsmaðurinn niður með mér og fór yfir mat sitt á mér. Það var mjög jákvætt og ég fékk jákvæða dóma á öllum sviðum s.s. skipulagi fyrir mótið, samskipti við mótshaldara og starfsmenn mótsins, yfirsýn, kunnátta ofl. Þetta var frábært og mjög gaman að fá svona mat. Matsmaðurinn sagðist ætla senda skýrslu sína til Badminton Europe og mæla með því að ég fengi réttindi sem Badminton Europe yfirdómari.
Ég fékk svo tölvupóst frá BE tveimur vikum seinna og skírteini sem Badminton Europe Referee.
Síðan þá hef ég verið yfirdómari á Meistaramóti Íslands 2018 og er svo að fara sem Deputy Referee á European Junior Championships 2018 í Tallinn, Eistlandi í september nk. og svo á Norwegian International 2018 í nóvember nk."
Óskum við Laufey innilega til hamingju með þennan flotta árangur.