top of page
Search
bsí

Ísland sigraði Færeyjar örugglega 10 - 0 í vináttulandsleik


Nú fyrr í kvöld fór fram vináttulandsleikur milli Íslands og Færeyja í badmintoni. Íslenska landsliðið vann öruggan sigur 10 – 0 þar sem allir leikirnir unnust í tveimur lotum. Var þessi vináttulandsleikur undirbúningur fyrir Evrópumeistaramót karla- og kvennalandsliða sem fram fer í Kazan, Rússlandi 13-18. febrúar.

Atli Jóhannesson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, stýrði liðinu í þessum leik. Var liðið fullskipað leikmönnunum sem fara til Rússlands fyrir utan að það vantaði Kára Gunnarsson en fyrir hann var Eiður Ísak Broddason kallaður inn í hópinn.

Dómarar þessara leikja voru þær Laufey Sigurðardóttir og Sólveig Ósk Jónsdóttir.

Var þessi leikur góð æfing fyrir komandi verkefni og þökkum við Færeyingum kærlega fyrir heimsóknina.

Fyrirkomulagið á leiknum var með þeim hætti að spilaðir voru 2 leikir í hverri grein

  • 2 einliðaleikir kvenna

  • 2 einliðaleikir karla

  • 2 tvíliðaleikir kvenna

  • 2 tvíliðaleikir karla

  • 2 tvenndarleikir

Nánari umfjöllun um leikina má lesa hér að neðan.

Hér má einnig sjá fleiri myndir frá leiknum.

Arna Karen Jóhannsdóttir og Þórunn Eylands spiluðu

einliðaleikina fyrir Ísland. Arna Karen var með yfirburði allan tímann í sínum leik og sigraði Kristinu Eriksen örugglega 21 – 7 og 21 – 14. Þórunn Eylands byrjaði sinn leik frekar rólega og var undir 11-8 í leikhléi, en eftir gott samtal við Atla Jóhannesson aðstoðarlandsliðsþjálfara náði hún að snúa leiknum sér í hag eftir jafnt spil og sigraði lotuna 21-19. Í þeirri seinni var Þórunn allan tímann með yfirhöndina og vann þægilegan 21 – 8 sigur.

Daníel Jóhannesson og Eiður Ísak Broddason spiluðu einliðaleiki karla fyrir Íslands hönd. Daníel Jóhannesson spilaði við Bartal Poulsen og bar hann sigur úr býtum 21 – 15 og 21 – 15 . Daníel spilað öruggt spil og lenti til að mynda aldrei undir í öllum leiknum.

Eiður Ísak átti einnig mjög góðan leik þegar hann mætti Rani í Bo. Fyrri lotan var nokkuð jöfn en Eiður var þó með yfirhöndina allan tímann og sigraði að lokum 21 – 17. Í þeirri næstu setti Eiður í næsta gír og sigraði þá lotu örugglega 21 – 9.

Báðir tvíliðaleikirnir sigruðust mjög örugglega. Margrét Jóhannsdóttir og Sigríður Árnadóttir spiluðu á móti Gunnvu Jacobsen og Kristinu Eriksen og unnu þær leikinn 21 – 9 og 21 – 12. Margrét og Sigríður spiluðu mjög vel, voru öruggar í öllum sínum aðgerðum og fóru nokkuð þægilega í gegnum þennan leik. Arna Karen og Þórunn Eylands spiluðu gegn Johonnu Osberg og Solfrid Hjorleifsdottur í seinni tvíliðaleiknum og var þessi leikur mjög öruggur. Íslensku stelpurnar spiluðu gríðarlega vel og unnu mjög svo sannfærandi sigur 21 – 2 og 21 – 3.

Í fyrri tvíliðaleik karla spiluðu Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson gegn Bastal Poulsen og Benjamin Gunarstein. Davíð og Kristófer byrjuðu af miklum krafti og unnu fyrri lotuna örugglega 21 – 9. Í þeirri seinni tóku Færeyingarnir vel við sér en á sama tíma slökuðu okkar strákar fullmikið á og voru undir í leikhléi 7 – 11. Eftir leikhlé náðu Davíð og Kristófer að jafna í stöðunni 12 – 12 og var staðan nokkuð jöfn þar sem oftast munaði 1-2 stigum á liðunum. Davíð og Kristófer náðu síðan góðum endaspretti og sigruðu lotuna 21 – 19.

Seinni tvíliðaleik karla spiluðu Daníel Jóhannesson og Eiður Ísak Broddason og unnu þeir Magnus Dal-Christiansen og Magna Hansen 21 – 9 og 21 – 11. Daníel og Eiður virtust ekki þurfa að hafa mikið fyrir spilinu enda gerðu Færeyingarnir talsvert mikið af mistökum sem Daníel og Eiður nýttu sér vel. Daníel og Eiður héldu sókninni vel og unnu vel saman.

Fyrri tvenndarleikinn spiluðu Margrét Jóhannsdóttir og Kristófer Darri Finnsson við Gunnvu Jacobsen og Magnus Dal-Christiansen. Margrét og Kristófer spiluðu fasta sókn á Færeyingana sem áttu í fullu fangi með að verjast. Unnu þau sannfærandi sigur 21 – 9 og 21 – 11.

Seinni tvenndarleikinn spiluðu Sigríður Árnadóttir og Davíð Bjarni Björnsson við Solfrid Hjorleifsdottur og Magna Hansen. Líkt og í fyrri tvenndarleiknum var íslenska liðið alltaf með yfirhöndina. Sigríður og Davíð spiluðu virkilega vel og voru mjög ákveðin fram á völlinn. Þau unnu fyrri lotuna 21 – 15 og þá seinni 21 – 7.


204 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page