top of page
Search
bsí

Ólympíubragur á skráningu RSL Iceland International 2020





Skráningu á RSL Iceland International 2020 er lokið og ber skráningin þess merki að Ólympíuleikarnir eru á næsta ári. Mótið er hluti af Future Series mótaröðinni og gefur stig á heimslistann. Þá er mótið einnig hluti af Reykjavík International Games líkt og síðustu ár.

Alls eru 114 erlendir leikmenn skráðir í mótið en þeir koma frá 36 löndum. Þá eru 38 íslenskir keppendur skráðir og er þetta stærsta landsliðsverkefni Íslands ár hvert.

Mjög góð skráning er í einliðaleikina og þá sérstaklega karla meginn en þar eru 88 leikmenn skráðir til leiks. Í einliðaleik kvenna eru 46 leikmenn skráðir til leiks. Í einliðaleikjunum mun því fara fram forkeppni en í einliðaleik karla fara 24 leikmenn inn í aðalkeppnina en 64 leikmenn munu slást um 8 sæti sem verða í boði í aðalkeppninni. Í einliðaleik kvenna komast 28 leikmenn inn í aðalkeppnina en 18 leikmenn þurfa að keppa um fjögur laus sæti í aðalkeppninni. Kári Gunnarsson er eini íslendingurinn sem fer beint inn í aðalkeppnina í einliðaleik karla en hann fær þriðju röðun inn í mótið. Kári er sem stendur í 147. sæti heimslistans í einliðaleik. Fyrstu röðun í einliðaleik karla fær Timothy Lam en hann er númer 115 á heimslistanum og Alex Lane frá Englandi fær aðra röðun en hann er númer 126 á heimslistanum. Í einliðaleik kvenna er það Airi Mikkela frá Finnlandi sem fær fyrstu röðun en hún er nr 91 í heiminum og Haramara Gaitan frá Mexíkó er með aðra röðun en hún situr í 95.sæti heimslistans. Þær Sigríður Árnadóttir, Sólrún Anna Ingvarsdóttir og Þórunn Eylands Harðardóttir komast inn í aðalkeppnina en aðrir íslenskir leikmenn fara í forkeppnina. Í tvíliða- og tvenndarleikjum er ekki undankeppni. Í tvíliðaleik karla eru 27 pör skráð til leiks. Í tvíliðaleik kvenna eru 15 pör skráð til leiks og í tvenndarleik eru 19 pör skráð og eru Daníel Jóhannesson og Sigríður Árnadóttir með aðra röðun þar inn. Badminton World Federation og Badminton Europe eru búin að gefa út lista þar sem má sjá hvaða leikmenn eru skráðir í mótið og eins hvaða leikmenn komast inn í aðalkeppni og hvaða leikmenn þurfa að fara í forkeppni mótsins. Við val á þessu er farið eftir stöðunni á heimslistanum 24.desember 2019. Smellið hér til þess að sjá þessar upplýsingar. Dregið verður í mótið 7.janúar.

165 views0 comments

Commentaires


bottom of page