Góður árangur á Iceland Express International

Alþjóðlega badmintonmótinu Iceland Express International 2007 er lokið. Mótið tókst mjög vel í alla staði og ekki skemmdi fyrir að árangur íslensku keppendanna var mjög góður.

Tvíliðaleikur kvenna var síðasti leikur mótsins en hann var alíslenskur þrátt fyrir að mótið væri alþjóðlegt sem sýnir hvað stelpurnar okkar eru framarlega í badmintonheiminum í dag. Til úrslita léku Tinna Helgadóttir og Sara Jónsdóttir gegn Rögnu Ingólfsdóttur og Katrínu Atladóttur. Ragna og Katrín þurftu að vinna tvö sterk dönsk pör til að komast í úrslitaleikinn og þær Tinna og Sara unnu meðal annars sigurstranglegasta par mótsins Emilie Lennartsson og Sophia Hansson frá Svíþjóð. Leikur íslensku stelpnanna í úrslitunum var jafn og skemmtilegur. Fyrstu lotuna unnu Ragna og Katrín 21-19 en næstu lotu unnu þær Sara og Tinna 23-21. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit í leiknum og hana sigruðu þær Ragna og Katrín 21- 17.

Í einliðaleik kvenna sigraði Ragna Ingólfsdóttir í úrslitum Trine Niemeier frá Danmörku 21-11 og 21-3. Leikurinn var mjög ójafn, Ragna hafði yfirhöndina allann tímann og sú danska átti ekki möguleika á sigri. Ragna hefur þar með unnið tvö alþjóðleg mót í röð því um síðustu helgi sigraði hún á Opna Ungverska mótinu. Frábær árangur hjá þessari glæsilegu íþróttakonu sem hjálpar henni mikið í baráttunni við að komast á Ólympíuleikana í Bejing 2008. Á leið sinni í úrslitaleikinn í dag vann Ragna meðal annars Kati Tolmoff frá Eistlandi sem fyrirfram var þó talin sigurstranglegri.

Íslensku strákarnir náðu ekki að komast í úrslitaleikina í dag en voru þó ekki fjarri því. Tryggvi Nielsen og Magnús Ingi Helgason töpuðu í undanúrslitum fyrir sigurvegurum mótsins en höfðu áður sigrað fyrirfram talið sigurstranglegasta parið, Pedro Yang og Erick Anguiano frá Guatemala. Sigurvegararnir í tvíliðaleik karla voru Danirnir Peter Hasbak og Jonas Glyager Jensen.

Tékkinn Peter Koukal sigraði í einliðaleik karla en hann sigraði í úrslitum Marco Vasconcelos frá Portúgal sem einnig varð í öðru sæti á Iceland Express mótinu í fyrra. Í tvenndarleik sigruðu Danirnir Jonas Glyager Jensen og Maria Kaaberböl Thorberg landa sína Peter Mörk og Trine Niemeier í úrslitum.

Úrslit allra leikja má nálgast með því að smella hér.

Ljósmyndarinn Dille Andersen frá Danmörku tók mikið af myndum á mótinu. Hægt er að skoða og kaupa myndir frá henni á heimasíðunni www.topbadminton.com

Badmintonsambandið þakkar öllum dómurum, línuvörðum og öðru starfsfólki sem lagði hönd á plóginn við framkvæmd mótsins kærlega fyrir aðstoðina. Yfirdómarinn Jan Samuelsson var sérstaklega ánægður með alla starfsmenn og taldi að framkvæmd mótsins í ár hefði verið sú besta hingað til.

Skrifað 11. nóvember, 2007
ALS