Ragna sigraði á Iceland Express International

Úrslitaleiknum í einliðaleik kvenna á alþjóðlega badmintonmótinu Iceland Express International sem nú fer fram í TBR-húsunum var að ljúka. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir sigraði í úrslitum Trine Niemeier frá Danmörku 21-11 og 21-3. Leikurinn var mjög ójafn, Ragna hafði yfirhöndina allann tímann og sú danska átti ekki möguleika á sigri. Ragna hefur þar með unnið tvö alþjóðleg mót í röð því um síðustu helgi sigraði hún á Opna Ungverska mótinu. Frábær árangur hjá þessari glæsilegu íþróttakonu sem hjálpar henni mikið í baráttunni við að komast á Ólympíuleikana í Bejing 2008.

Nú fer fram tvíliðaleikur karla en þar eru bæði pörin dönsk. Um leið og leiknum lýkur fer fram tvíliðaleikur kvenna en þar leika Sara Jónsdóttir og Tinna Helgadóttir gegn Rögnu Ingólfsdóttur og Katrínu Atladóttur. Hægt er að skoða leiki dagsins á Iceland Express International mótinu með því að smella hér.

Skrifað 11. nóvember, 2007
ALS