Annar dagur Iceland International hafinn

Annar dagur Iceland International í íþróttahúsi TBR við Gnoðarvog hófst kl. 10:00.

Athygli vekur að fjórar systur, Halldóra Elín, Snjólaug, Jóhanna og Margrét Jóhannsdætur eru allar að spila í sama alþjóðlega mótinu og allar eru í meistaraflokki. Tvær þeirra hófu leik í morgun þegar mótið hófst með leikjum í tvenndarleik. Var um innbyrðisviðureign að ræða hjá þeim þar sem þurfti oddalotu til að fá úrslit. Enduðu leikar þannig að þau Atli Jóhannesson og Snjólaug unnu Arthúr Geir Jóhannesson og Halldóru Elínu eftir hörkuleik sem endaði 25 – 23, 23 – 25 og 21 – 18.

Önnur úrslit voru þannig að Helgi Jóhannesson og Elín Þóra Elíasdóttir töpuðu í tveimur lotum fyrir danska parinu Fredrik Colberg og Mette Poulsen, 13 – 21 og 17 – 21. Þá töpuðu Kjartan Ágúst Valsson og Erla Björg Hafsteinsdóttir einnig fyrir dönsku pari en þau Róbert Þór Henn og Karitas Ósk Ólafsdóttir unnu íslenska andstæðinga.

Leikir í einliðaleik kvenna eru ný hafnir þar sem Ragna Ingólfsdóttir leikur gegn Katrínu Atladóttur og Tinna Helgadóttir gegn hinni geysisterku Anitu Raj Kaur frá Malasíu.

Smellið hér til að sjá fleiri úrslit á mótinu.

Skrifað 13. nóvember, 2010
mg