Atlamót ÍA var haldið um helgina

Fyrsta stjörnumót BSÍ, Atlamót ÍA, var haldið um helgina.

Kári Gunnarsson TBR stóð uppi sem sigurvegari í einliðaleik karla eftir að hafa lagt sigurvegara síðasta árs, Atla Jóhannesson TBR, að velli 21-18 og 21-9. Geisispennandi viðureign var í undanúrslitum þegar Kári atti kappi við Íslandsmeistarann Helga Jóhannesson TBR en Helgi vann Kára í úrslitum Íslandsmótsins 21-19 og 21-19. Leikur þeirra fór í odd á þessu móti en Kári hafði betur 21-11, 21-23 og 21-10.

Úrslitaviðureign í einliðaleik kvenna var einnig mjög spennandi en endaði með sigri Rakelar Jóhannesdóttur TBR á Snjólaugu Jóhannsdóttur TBR eftir oddalotu 20-22, 21-15 og 21-19.

Í tvíliðaleik karla sigruðu Daníel Thomsen og Bjarki Stefánsson TBR þá Arthúr Geir Jósefsson og Einar Óskarsson TBR 21-16 og 22-20.

Í tvíliðaleik kvenna unnu Karitas Ósk Ólafsdóttir og Snjólaug Jóhannsdóttir TBR Halldóru Elínu Jóhannsdóttur og Katrínu Atladóttur TBR eftir oddalotu 13-21, 21-18 og 21-11.

Tvenndarleiknum lauk einnig með oddalotu þegar Arthúr Geir Jósefsson og Halldóra Elín Jóhannsdóttir TBR lögðu Helga Jóhannesson og Margréti Jóhannsdóttur TBR að velli 21-15, 19-21 og 21-14.

Það má því segja að Atlamótið hafi verið gífurlega spennandi í meistaraflokki.

Til að sjá fleiri úrslit á mótinu smellið hér.

Skrifað 4. oktober, 2010
mg