BH-ingar farnir til Hollands

Lið Badmintonfélags Hafnarfjarðar tekur þátt í Evrópukeppni félagsliða í Zwolle í Hollandi dagana 23.-28.júní næstkomandi. Íslandsmeistarar TBR ákváðu að senda ekki lið í keppnina að þessu sinni og því bauðst Hafnfirðingum að nýta sætið enda voru þeir í sætinu á eftir TBR-ingum í Deildakeppni Badmintonsambandsins, Íslandsmóti badmintonliða. Hér er um sögulega keppni að ræða því aldrei hefur annað lið en TBR keppt fyrir Íslands hönd á Evrópukeppni félagsliða.

Í liði Hafnarfjarðar eru eftirtaldir leikmenn: Anna Lilja Sigurðardóttir, Brynja Kolbrún Pétursdóttir, Erla Björg Hafsteinsdóttir, Heiðar B. Sigurjónsson, Hólmsteinn Þór Valdimarsson, Kjartan Ágúst Valsson og Tómas Björn Guðmundsson. Liðsstjóri er Hörður Þorsteinsson, formaður Badmintonfélags Hafnarfjarðar. Liðið er blanda af yngri og eldri leikmönnum sem flestir hafa þó litla reynslu af alþjóðlegri keppni. Reynslumesti leikmaður liðsins er Brynja Kolbrún Pétursdóttir sem hefur spilað 30 landsleiki fyrir Íslands hönd og spilað í fjöldanum öllum af alþjóðlegum mótum. Hólmsteinn Þór Valdimarsson hefur spilað þrjá landsleiki fyrir Ísland en aðrir leikmenn hafa ekki spilað fyrir land og þjóð.

Andstæðingar BH-inga í Hollandi eru heldur betur verðugir. Öll þrjú liðin sem eru með Hafnfirðingum í riðli eru skipuð leikmönnum sem hafa tekið þátt í Ólympíuleikum.

Rússneska liðið Favorit-Ramenskoe og núverandi Evrópumeistarar félagsliða eru fyrstu andstæðingar BH-inga en liðin mætast miðvikudaginn 23.júní kl.14:30 að hollenskum tíma. Þrír leikmenn Favorit-Ramenskoe tóku þátt í Ólympíuleikunum í Peking 2008 en það voru þau Ella Diehl, Kamila Augustyn og Przemystaw Wacha.

Fimmtudaginn 24.júní kl.10 að hollenskum tíma mætir lið BH tékkneska liðinu Sokol Vesely Brno Jehnice. Sterkast leikmaður liðsins Petr Koukal keppti á Ólympíuleikunum í Peking og er númer 45 á heimslistanum í einliðaleik karla.

Síðustu andstæðingar BH-inga í riðlinum eru ASKÖ Traun frá Austurríki en liðin mætast föstudaginn 25.júní kl.10 að hollenskum tíma. Sterkasta konan í þeirra liði, Simone Prutsch, hefur tekið þátt í 12 alþjóðlegum mótum það sem af er þessu ári og er mjög reynslumikil. Þá teljast bræðurnir Jurgen Kock og Harald Kock einnig nokkuð þekktir í badmintonheiminum. Jurgen Kock tók þátt í Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 og hefur verið virku í alþjóðlegu badmintoni frá þeim tíma.

Aðeins eitt lið kemst áfram úr riðlakeppninni í útsláttarkeppni mótsins og verður að teljast frekar ólíklegt að Hafnfirðingum takist það enda um mjög sterka andstæðinga að ræða. BH-ingar hafa þó æft vel fyrir mótið og ætla að sjálfsögðu að vera sér og sínu félagi til sóma á mótinu. Smellið hér til að skoða niðurröðun og fylgjast með gangi mála á Evrópukeppni félagsliða 2010.

Skrifađ 22. júní, 2010
mg