Fimm íslenskar áfram í aðra umferð í einliðaleik

Íslensku stelpurnar á alþjóðlega badmintonmótinu Iceland Express International stóðu sig mjög vel í fyrstu umferð í einliðaleik. Fimm af þeim fimmtán sem keppa fyrir Íslands hönd á mótinu eru komnar áfram í 16 liða úrslitin.

Tinna Helgadóttir sigraði Ninu Weckstrom frá Finnlandi 21-16 og 22-20 en Nína er mjög sterkur leikmaður og er númer 131 á heimslistanum. Katrín Atladóttir sigraði með glæsibrag norsku stúlkuna Sara Kverno 21-18 og 21-19. Þá sigraði Sara Jónsdóttir írsku stúlkuna Ruth Kilkenny í mjög jöfnum þriggja lotu leik 21-11, 17-21 og 21-14 en Ruth er númer 116 á heimslistanum. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir fór létt með ítölsku stúlkuna Stephanie Romen sem hún sigraði 21-5 og 21-9. Síðasta íslenska stúlkan til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum var Birgitta Rán Ásgeirsdóttir en hún fékk sinn leik gefin vegna þess að Jie Meng frá Peru mætti ekki til leiks.

Sextán liða úrslit í einliðaleik kvenna hefjast kl. 19.20 í kvöld en það eru síðustu leikir dagsins í dag. Áætlað er að þeim ljúki milli kl. 20.30 og 21.00. 

Nú er í gangi keppni í tvíliðaleik karla. Leiki dagsins má skoða með því að smella hér.

Skrifað 9. nóvember, 2007
ALS