Sextánliða úrslitum í tvenndarleik lokið

Keppni á alþjóðlega badmintonmótinu Iceland Express International hófst á tvenndarleik í morgun. Leikin voru sextán liða úrslit.

Magnús Ingi Helgason og Tinna Helgadóttir eru komin áfram í átta liða úrslitin eftir sigur á Daníel Thomsen og Hönnu Maríu Guðbjartsdóttur.

Þá eru Arthur Geir Jósefsson og Halldóra Elín Jóhannsdóttir einnig komin áfram í átta liða úrslitin en þau sigruðu norskt par í sextán liða úrslitunum. Leikur þeirra Halldóru og Arthurs var mjög jafn, þau unnu fyrstu lotuna 21-17 en töpuðu síðan næstu lotu naumlega 20-22. Í oddalotunni höfðu Íslendingarnir yfirhöndina í mjög jöfnu spili og sigruðu 21-18. Glæsilegt hjá okkar fólki.

Önnur íslensk tvenndarleikspör biðu lægri hlut í sextán liða úrslitunum og eru því dottin úr leik. Nú er í gangi keppni í einliðaleik karla. Leiki dagsins má skoða með því að smella hér.

Skrifað 9. nóvember, 2007
ALS