Fyrsti dagur Evrópumótsins á morgun

Evrópumótið í badminton hefst á morgun, miðvikudaginn 14. apríl, í Manchester í Englandi. Þátttökurétt á mótinu öðlast keppendur með þátttöku í mótum í Evrópumótaröðinni.

Að þessu sinni taka þátt fyrir Íslands hönd Ragna Ingólfsdóttir TBR, Helgi Jóhannesson TBR og Magnús Ingi Helgason TBR. Ragna keppir í einliðaleik og tvenndarleik með Helga. Helgi keppir í einliðaleik, tvíliðaleik með Magnúsi Inga og í tvenndarleik.

Á morgun keppir Ragna í einliðaleik við spænsku stúlkuna Sandra Chirlaque sem er í 106. sæti heimslistans. Ragna er í 171. sæti heimslistans. Helgi keppir í einliðaleik við Rússann Vladimir Malkov sem er í 53. sæti heimslistans. Helgi er í 273. sæti listans. Það má því búast við erfiðum leik hjá Helga á morgun. Helgi og Ragna spila síðan á móti úkraínska parinu Valeriey Atrashchenkov og Elena Prus á morgun en þau eru röðuð í 8. sæti á mótinu.

Ef Ragna vinnur leikinn gegn Chirlaque spilar hún annan einliðaleik á morgun annað hvort gegn grænlensku stúlkunni Mille Kongstad sem spilaði hér á Iceland International í nóvember eða gegn ítölsku stúlkunni Ira Tomio.

Smellið hér til að fá nánari upplýsingar um niðurröðun og tímasetningar á mótinu.

 

Skrifađ 13. apríl, 2010
mg