Tinna leikur til ˙rslita Ý ■remur greinum anna­ ßri­ Ý r÷­

Á morgun sunnudag verður leikið til úrslita á Meistaramóti Íslands í badminton. Keppni í meistaraflokki hefst kl. 13:50 og verður í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. Úrslitaleikir í A, B og öldungaflokkum hefjast kl. 10:00. Áætlað er að þeim ljúki um kl. 12:30 og verður verðlaunaafhending í kjölfarið.

Í einliðaleik karla leika til úrslita Íslandsmeistari síðasta árs, Helgi Jóhannesson TBR og Kári Gunnarsson TBR. Kári hefur búið með fjölskyldu sinni í Kaupmannahöfn frá fæðingu. Hann spilar með U19 landsliði Íslands og var einnig í A-landsliði Íslands í liðakeppni Evrópu í febrúar síðastliðnum. Kári er fyrsti maðurinn til að fara í úrslit í einliðaleik karla í meistaraflokki og vera jafnframt leikmaður í U19 flokknum í 32 ár. Síðast var það Jóhann Kjartansson sem var í U19 og spilaði úrslitaleik í einliðaleik karla á Meistaramóti Íslands árið 1978. Jóhann varð þá jafnframt Íslandsmeistari í einliðaleik. Kári sigraði Atla Jóhannesson TBR í undanúrslitunum í hörkuspennandi oddaleik í dag. Helgi vann Arthúr Geir Jósefsson TBR í hinum undanúrslitaleiknum.

Þær Tinna Helgadóttir TBR og Ragna Ingólfsdóttir TBR mætast í úrslitunum í einliðaleik kvenna. Tinna varð Íslandsmeistari í fyrra en Ragna fór fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikana í Peking árið 2008. Þetta er í fjórða skipti sem Tinna spilar til úrslita í meistaraflokki. Ragna er efst á íslenska styrkleikalistanum í einliðaleik kvenna og hefur verið framarlega í mótum vetrarins. Tinna æfir og keppir með danska úrvalsdeildarliðinu Greve þar sem hún hefur náð eftirtektarverðum árangri í vetur.

Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason TBR mæta þeim Brodda Kristjánssyni og Þorsteini Páli Hængssyni TBR í úrslitaleiknum í tvíliðaleik karla. Helgi og Magnús Ingi hafa sigrað í tvíliðaleiknum þrjú síðustu ár og unnu því Íslandsmeistarabikarana til eignar í fyrra. Þeir félagar hafa náð frábærum árangri saman á mótum. Broddi og Þorsteinn Páll hafa áralanga reynslu af badmintonkeppni. Broddi hefur tuttugu sinnum orðið Íslandsmeistari í tvíliðaleik og Þorsteinn Páll fimm sinnum. Nýjasta afrek Brodda er hinsvegar heimsmeistaratitill á Evrópumóti öldunga í aldursflokknum 45-49 ára síðastliðið haust.

Til úrslita í tvíliðaleik kvenna leika þær Katrín Atladóttir TBR og Ragna Ingólfsdóttir TBR annars vegar og Snjólaug Jóhannsdóttir TBR og Tinna Helgadóttir TBR hinsvegar. Tinna varð Íslandsmeistari í fyrra í tvíliðaleik kvenna ásamt Erlu Björg Hafsteinsdóttur.

Íslandsmeistarar síðasta árs í tvenndarleik systkinin Tinna og Magnús Ingi Helgabörn mæta í úrslitum Arthúri Geir Jósefssyni og Halldóru Jóhannsdóttur TBR. Tinna og Magnús Ingi hafa þrisvar hampað Íslandsmeistaratitlinum í tvenndarleik, árin 2005, 2008 og 2009.

Tinna Helgadóttir leikur til úrslita í þremur greinum á morgun. Hún á því möguleika á að sigra þrefalt annað árið í röð.

 

Meistaramót Íslands 2010

 

Sjá nánar um Íslandsmeistara í badminton frá upphafi með því að smella hér.

Smellið hér til að skoða dagskrá úrslitaleikjanna á morgun.

Skrifa­ 27. mars, 2010
mg