Evrˇpukeppni landsli­a karla og kvenna hefst ß morgun

Íslenska karla og kvenna landsliðið í badminton hélt til Póllands í dag til að taka þátt í Evrópukeppni landsliða karla annarsvegar og landsliða kvenna hinsvegar. Mótið hefst á morgun, 16.febrúar, en úrslitaleikirnir fara fram sunnudaginn 21. febrúar.

Alls munu 51 lið berjast um Evrópumeistaratitlana tvo eða 26 karla lið og 25 kvenna lið. Efstu þrjú liðin í keppninni tryggja sér þátttökurétt á Heimsmeistaramóti landsliða (Thomas og Uber Cup) sem fram fer í Kuala Lumpur í maí 2010.

Íslenska kvennalandsliðið leikur í riðli með Þýskalandi, Spáni og Svíþjóð. Búast má við erfiðum leikjum gegn Þýskalandi og Svíþjóð en íslenska landsliðið hefur aldrei unnið þær þjóðir. Leikirnir gegn Spáni ættu að reynast léttari.

Íslenska karlalandsliðið leikur í riðli með Danmörku, Finnlandi, Króatíu og Ungverjalandi. Leikirnir gegn Norðurlandaþjóðunum gætu orðið erfiðir en léttara verður sennilega að eiga við Króata og Ungverja.

Keppni fer þannig fram að leiknir eru þrír einliðaleikir og tveir tvíliðaleikir í hverri keppni milli tveggja þjóða. Allir leika við alla í riðlinum en aðeins efsta lið hvers riðils kemst áfram í útsláttarkeppni um Evrópumeistaratitilinn sjálfan.

Smellið hér til að skoða leiki íslenska karlalandsliðsins og smellið hér til að skoða leiki íslenska kvennalandsliðsins.

Möguleikar íslenska kvennalandsliðsins:

Þjóðverjar eru klárlega besta liðið í riðlinum hjá íslensku stelpunum og munu án efa standa undir væntingum og sigra riðilinn. Þýska kvennaliðið varð í 3.sæti í síðustu keppni sem haldin var fyrir tveimur árum í Hollandi. Þeirra sterkasta einliðaleiks kona Juliane Schenk er númer 11 á heimslistanum um þessar mundir og er einnig Þýskalandsmeistari í einliðaleik kvenna. Það er því ljóst að íslensku stelpurnar eiga undir högg að sækja gegn þessu sterka liði Þjóðverja.

Leikmenn Svía eru ekki margir á heimslistanum í einliðaleik kvenna. Þó er Sophia Hansson númer 95 á listanum. Það sama má þó segja um íslensku leikmennina sem lítið hafa verið á faraldsfæti fyrir utan Rögnu Ingólfsdóttur sem er númer 192 á listanum. Áætla má því að leikurinn gegn Svíþjóð geti orðið spennandi þrátt fyrir að við höfum aldrei borið sigur úr bítum gegn Svíþjóð. Í tvíliðaleik kvenna er parið Emelie Lennartsson og Emma Wengberg númer 35 á heimslistanum.

Auðveldustu leikir kvennalandsliðsins verða sennilega gegn Spáni en við höfum unnið alla leiki sem kepptir hafa verið við Spán hingað til.

Miðað við fyrrgreindar upplýsingar um andstæðinga íslenska kvennalandsliðsins á Evrópumótinu er harla ólíklegt að liðið sigri riðil sinn og í raun mjög óheppilegt að lenda með einu sterkasta liði mótsins í riðli. Líkur á öðru eða þriðja sæti í riðlinum eru hinsvegar nokkuð góðar en alls ekki öruggar.

Í kvennaliðið voru valdar þær Karitas Ósk Ólafsdóttir ÍA, Ragna Ingólfsdóttir TBR, Rakel Jóhannesdóttir TBR, Snjólaug Jóhannsdóttir TBR og Tinna Helgadóttir sem nú spilar með Greve í Danmörku. Flestar eru reynslumiklar landsliðskonur en Rakel Jóhannesdóttir er að fara í sínu fyrstu A-landsliðsferð. Hún hefur spilað með U19 og U17 landsliðunum undanfarin ár og er í dag einnig í U19 landsliðinu. Karítas hefur alls leikið 7 landsleiki fyrir Íslands hönd, Ragna 48, Snjólaug 10 og Tinna 35.

Möguleikar íslenska karlalandsliðsins:

Danska liðið sem er í riðli með íslenska karlalandsliðinu á Evrópumótinu vann mótið fyrir tveimur árum í Hollandi. Sterkasti einliðaleiksmaður Dana, Peter Gade, er númer fimm, á heimslistanum. Þá eru Jan Ö Jörgensen númer níu á heimslistanum. Danir eiga einnig mjög sterka tvíliðaleiks menn. Þeirra sterkasta par er númer fjögur á heimslistanum. Miðað við stöðu leikmanna á heimslistanum má telja nánast öruggt að Danir sigri riðilinn.

Karlalið Finnlands lenti í örðu sæti í riðli sínum á Evrópumótinu fyrir tveimur árum líkt og íslenska karlaliðið. Ísland og Finnland hafa mæst 16 sinnum í landsleikjum og Finnar hafa unnið 11 sinnum. Finnarnir eru ekki mjög framarlega á heimslistanum en þeir eiga tvo leikmenn á topp 200. Það verður spennandi að fylgjast með leikjum Íslendinga og Finna og það gætu reynst spennandi leikir.

Íslendingar eiga ekki mikla reynslu af leikjum gegn Króötum. Við höfum einungis einu sinni keppt við þá og unnum þann leik. Enginn leikmanna Króatíu er á top 200 á heimslistanum frekar en í íslenska liðinu. Það er því erfitt að spá fyrir um leikina gegn Króatíu bæði út frá heimslistanum og frá sögulegu sjónarmiði.

Íslenska landsliðið hefur spilað 11 leiki gegn Ungverjalandi, unnið níu sinnum og tapað tvisvar. Það má því fyrirfram búast við góðum leikjum gegn Ungverjum. Enginn leikmanna þeirra er framarlega á heimslistanum en einn er númer 113. Fyrirfram má því búast við sigri gegn Ungverjum.

Miðað við ofangreindar upplýsingar um andstæðinga íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í febrúar eru allar líkur á því að liðið muni lenda í 3. sæti riðilsins. Staðan á pappírunum gengur hinsvegar ekki alltaf eftir og því verður spennandi að fylgjast með keppninni.

Í karlaliðið voru valdir þeir Atli Jóhannesson, Helgi Jóhannesson, Kári Gunnarsson og Magnús Ingi Helgason. Kári er nú í fyrsta sinn valinn í íslenska A-landsliðið í badminton líkt og Rakel en hann er líka í U19 landsliði Íslands. Aðrir leikmenn karla liðsins eru töluvert reynslumeiri og hafa verið í landsliðinu um nokkurra ára skeið. Atli hefur leikið 12 landsleiki fyrir Íslands hönd, Helgi 53 og Magnús Ingi 36.

Nánari upplýsingar um Evrópukeppni landsliða má finna á heimasíðu Badmintonsambands Evrópu eða heimasíðu mótsins.

Skrifa­ 15. febr˙ar, 2010
mg