Árni Þór hefur valið hópinn sem fer til Póllands

Landslið Íslands í badminton mun taka þátt í Liðakeppni Evrópu (karla og kvenna) í Varsjá í Póllandi dagana 16. - 21. febrúar næstkomandi.

Árni Þór Hallgrímsson landsliðsþjálfari hefur valið hópinn sem fjórir karlar og fimm konur skipa að þessu sinni. Fyrir Íslands hönd keppa Atli Jóhannesson, Helgi Jóhannesson, Kári Gunnarsson, Magnús Ingi Helgason, Karitas Ósk Ólafsdóttir, Ragna Ingólfsdóttir, Rakel Jóhannesdóttir, Snjólaug Jóhannsdóttir og Tinna Helgadóttir.

Í karlaflokki lenti Ísland í riðli með Dönum, Finnum, Króötum og Ungverjum.

Í kvennaflokki lenti Ísland í riðli með Spáni, Svíþjóð og Þýskalandi.

Búast má við erfiðum leikjum í karlaflokki gegn Dönum og Finnum. Ísland hefur einungis einu sinni spilað gegn Króatíu og bar sigur úr bítum. Þá hefur íslenska landsliðið spilað 11 leiki gegn Ungverjum í gegnum tíðina, sigrað níu sinnum og tapað tvisvar.

Í kvennaflokki má búast við sigri gegn Spáni en Ísland hefur fjórum sinnum unnið Spán. Erfiðara verður við Þjóðverja og Svía að etja en Ísland hefur aldrei unnið þær þjóðir.

Til að lesa meira um Liðakeppni Evrópu smellið hér.

Skrifað 19. janúar, 2010
mg