Badmintonhátíðin hefst á morgun

Alþjóðlega alþjóðlega badmintonmótið Iceland Express International hefst í TBR-húsunum á morgun fimmtudag. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og er keppt um 5000 dollara verðlaunafé. Mótið gefur einnig stig á heimslista alþjóða badmintonsambandsins og er því mikilvægt fyrir þá leikmenn sem keppa að því að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum.

Mikill fjöldi erlendra þátttakenda hefur skráð sig til keppni eða alls 58 ásamt 29 íslenskum leikmönnum eða samtals 87 leikmenn. Alls voru 72 leikmenn skráðir í Iceland Express International í fyrra og voru 49 þeirra erlendir. Flestir eru skráðir til keppni í einliðaleik karla eða 45 leikmenn, 32 konur eru skráðar í einliðaleik kvenna, 15 pör í tvíliðaleik karla, 12 pör í tvíliðaleik kvenna og 15 pör í tvenndarleik. Lista yfir leikmenn má skoða með því að smella hér. Keppendur á mótinu koma frá 17 löndum auk Íslands. Árið 2006 komu keppendur frá 12 löndum auk Íslands og því er mótið alltaf að verða alþjóðlegrara. Löndin sem taka þátt í mótinu í ár eru Austurríki, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Guatemala, Ungverjaland, Íran, Írland, Ítalía, Noregur, Perú, Portúgal, Svíþjóð, Bandaríki og Wales auk Íslands.

Niðurröðun mótsins var birt á föstudag en það er Evrópusambandið sem sér um að draga í mótið. Ljóst er að íslensku keppendurnir fá mjög harða keppni því eini Íslendingurinn sem fær röðun í mótið er Ragna Ingólfsdóttir sem er röðuð númer þrjú í einliðaleik kvenna þ.e. fyrirfram talin þriðja sterkasta einliðaleikskonan í mótinu. Miðað við stöðu leikmanna á heimslista eru því líkurnar á því fyrirfram talið að íslensku leikmennirnir verði í úrslitum ekki miklar. Reyndar er ástæða þess að íslensku leikmennirnir eru ekki inná heimslistanum sú að þeir hafa fæstir haft tækifæri til þess að taka þátt í alþjóðlegum mótum og þar með vinna sér inn stig á listanum. Þeir gætu því allt eins komið á óvart á þá sérstaklega hér á heimavelli.

Í einliðaleik karla þarf að leika undankeppni vegna mikils fjölda sem skráður er til keppni. Undankeppnin fer fram fimmtudaginn 8.nóvember kl. 13.30-16.30 og komast fjórir leikmenn áfram í aðal mótið. Fyrstu röðun í einliðaleik karla fær Tékkinn Peter Koukal en hann er númer 41 á heimslistanum. Íslandsmeistarinn Magnús Ingi Helgason fær það erfiða verkefni að mæta Peter í fyrsta leik. Aðeins tveir aðrir Íslendingar eru öruggir um að keppa í aðal mótinu í einliðaleik karla en það eru þeir Tryggvi Nielsen og Atli Jóhannesson. Tryggvi mætir Dananum Morten T. Kronborg í fyrsta leik en Morten er númer 220 á heimslistanum. Daninn er sterkur en ætti þó ekki að vera óyfirstíganlegt verkefni fyrir Tryggva. Atli mætir Tékkanum Pavel Florián sem er númer 152 á heimslistanum. Vissulega erfitt verkefni fyrir hinn unga og efnilega Atla.

Í einliðaleik kvenna er hin sterka ítalska Agnese Allegrini með fyrstu röðun en hún er númer 38 á heimslistanum. Aðra röðun fær eistneska stúlkan Kati Tolmoff sem er númer 45 á heimslistanum og þriðju röðun Ragna Ingólfsdóttir númer 53. Ragna mætir í fyrsta leik ítölsku stúlkunni Stephanie Romen sem er númer 301 á heimslistanum. Hún er þó aðeins með fjögur mót á bakvið sig og því segir heimslistastaðan ekki mikið um getu hennar. Ragna er þó að sjálfsögðu talin sigurstranglegri.

Í tvíliðaleik karla eru þrjú pör á topp 100 heimslistans skráð til leiks og nokkur önnur sterk pör sem ekki hafa spilað í mörgum alþjóðlegum mótum að undanförnu. Sterkasta íslenska parið Magnús Ingi Helgason og Tryggvi Nielsen mæta Dönunum Peter Mörk og Niklas Hoff í fyrsta leik en þeir eru númer 147 á heimslistanum. Erfitt fyrir íslensku strákana en samt möguleiki.

Tvíliðaleikur kvenna er mjög sterkur á Iceland Express mótinu í ár þrátt fyrir að frekar fá lið séu skráð til keppni. Fyrstu röðun fær sænskt par sem er númer 39 á heimslistanum en það eru þær Sara Jónsdóttir og Tinna Helgadóttir sem fá það erfiða hlutverk að mæta þeim í fyrsta leik. Aðra röðun fá stúlkur frá Perú en þær eru númer 52 á heimslistanum. Íslandsmeistararnir í tvíliðaleik kvenna Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir mæta í fyrstu umferð óþekktu dönsku pari sem ekki er inná heimslistanum og því ómögulegt að segja um möguleika þeirra.

Tvenndarleikurinn er líklega opnasta greinin á Iceland Express mótinu í ár. Mjög fá pör eru með mörg mót á bakvið sig á heimslistanum og við öllu að búast í þeirri grein.

Iceland Express International hefst á fimmtudag með undankeppni í einliðaleik karla og lýkur á sunnudag en þá verða leiknir úrslitaleikir mótsins. Gróf dagskrá er eftirfarandi:

Fimmtudagurinn 8.nóvember
kl. 13.30-16.30 Undankeppni í einliðaleik karla (qualification)

Föstudagurinn 9.nóvember
kl. 11.00-21.00 Fyrsta og önnur umferð í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik

Laugardagurinn 10.nóvember
kl. 10.00-13.30 Átta liða úrslit - byrjað á tvenndarleik svo einliða- og tvíliðaleikir
kl. 13.30-15.00 Hlé
kl. 15.00-16.30 Afmælishátið BSÍ - allir velkomnir í kaffiboð í TBR húsunum
kl. 16.30-20.30 Undanúrslit - leikjaröð ákveðin af yfirdómara eftir átta liða úrslit

Sunnudagurinn 11.nóvember
kl. 10.00-14.00 Úrslitaleikir - leikjaröð ákveðin af yfirdómara eftir undanúrslit

Niðurröðun mótsins með nánari tímasetningum má finna með því að smella hér.

Skrifað 7. nóvember, 2007
ALS