Badmintonáriđ 2009

Badmintonárið 2009

Við áramót er hefð að líta yfir árið sem er að líða og skoða helstu viðburði og afrek. Nóg hefur verið um að vera hjá badmintonfólki á árinu 2009 en stærsti viðburðurinn var án efa Iceland International sem var haldið eftir að hætt var við mótið í fyrra vegna efnahagsástandsins. Eftirfarandi er stutt ágrip helstu viðburða Badmintonsambandsins á árinu 2009.

Janúar

Stjórn Badmintonsambandsins valid badmintonfólk ársins 2008. Fyrir valinu urðu Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson. Þau voru bæði verðugir aðilar þessara viðurkenninga og fengu viðurkenningar frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands daginn sem Íþróttamaður ársins var valinn.

Meistaramót TBR var að venju haldið 2. janúar. Magnús Helgason vann þrefalt á mótinu en hann spilaði tvenndarleik með systur sinni, Tinnu, sem sigraði tvöfalt á mótinu.

Badmintonsamband Íslands hélt þjálfaranámskeiðið Badmintonþjálfari 1B í janúar. Sextán þjálfarar frá sjö félögum víðsvegar af landinu tóku þátt og luku námskeiðinu. Á námskeiðinu var meðal annars farið yfir tækni og leikfræði fyrir leikmenn í U9 aldurshópnum samkvæmt skilgreiningum Badmintonbókarinnar. Þá var fjallað um hreyfiþroska og hreyfiþroskaþjálfun með ýmsum hætti. Í lok námskeiðsins heimsóttu nemendur Íþróttaskóla Badmintonfélags Hafnarfjarðar og fengu kynningu á fyrirkomulagi hans.

Alþjóðlega íþróttamótið Reykjavík International fór fram í Laugardalnum og þótti heppnast mjög vel. Stefnt er á að mótið verði árlegur viðburður í Reykjavík. Badmintonkeppnin fór fram í TBR húsunum og var bæði fjölmenn og spennandi. Alls tóku rúmlega 130 börn og unglingar þátt í mótinu frá níu félögum víðsvegar af landinu auk þátttakenda frá danska félaginu KBK. Dönsku gestirnir tóku þátt í U19 aldursflokknum. Bestum árangri í þeim flokki náðu Kári Gunnarsson og Rakel Jóhannesdóttir en bæðu sigruðu í einliða- og tvíliðaleik. Þrír leikmenn náðu þeim frábæra árangri að vinna þrefalt á mótinu en það voru TBR-ingarnir Sigríður Árnadóttir í U13, Gunnar Bjarki Björnsson í U15 og Margrét Jóhannsdóttir í U15.

Dagana 19. og 20. janúar hélt Badmintonsambandið kynningu á badmintoníþróttinni fyrir íbúa á Seyðisfirði. Á Seyðisfirði er frábær aðstaða til badmintoniðkunnar, fimm vellir í íþróttahúsinu og lýsing sérstaklega hönnuð fyrir badminton. Hjá Badmintondeild Hugins á Seyðisfirði iðka nokkrir fullorðnir einstaklingar badminton en ekkert barna- og unglingastarf hefur verið í gangi hjá félaginu um nokkurt skeið.

Í lok janúar fór Óskarsmót KR fram. Á mótinu var keppt í einliðaleik í meistaraflokki. Seinni hluti mótsins fór fram 8. febrúar. Í meistaraflokki kvenna sigraði Katrín Atladóttir TBR. Hún mætti í úrslitum Karitas Ósk Ólafsdóttur frá Akranesi. Atli Jóhannesson TBR sigraði í meistaraflokki karla í einliðaleik.

Febrúar

Deildakeppni Badmintonsambands Íslands fór að venju fram í TBR-húsunum fyrstu helgina í febrúar. Mótið var fjölmennt en alls tók 21 lið þátt í mótinu frá fjórum félögum. TBR-Y urðu Íslandsmeistarar í meistaradeildinni en TBR-Geitungar sigruðu í A-deild líkt og árið áður og BH-naglar sigruðu í B-deild.

Seinni hluti Óskarsmóts KR fór fram í febrúar. Keppt var í einliðaleik í A-flokki karla og kvenna og í einliðaleik B-flokks karla. Vinningshafar voru Birkir Steinn Erlingsson TBR og María Árnadóttir TBR í A-flokki og Eyþór Andri Rúnarsson TBR í B-flokki.

Evrópumót fullorðinna var haldið í Liverpool á Englandi dagana 10. – 15. febrúar. Landsliðið var þannig skipað: Atli Jóhannesson TBR, Helgi Jóhannesson TBR, Magnús Ingi Helgason TBR, Karitas Ósk Ólafsdóttir ÍA, Snjólaug Jóhannsdóttir, TBR og Tinna Helgadóttir TBR. Með Íslandi í riðli voru Ungverjaland, Ítalía og Úkraína. Íslenska liðið sigraði Ungverjaland 3-2, Ítalíu 3-2 en tapaði fyrir Úkraínu 1-4.

Mars

Margrét Gunnarsdóttir viðskiptafræðingur, var ráðin í stöðu framkvæmdastjóra Badmintonsambandsins. Margrét er ný í badmintonheiminum en hefur gegnt starfi framkæmdastjóra Blindravinnustofunnar síðastliðin 6 ár.

Íslandsmót unglinga var haldið í Mosfellsbæ fyrstu helgina í mars. Mótið gekk mjög vel fyrir sig og var góð stemning að Varmá alla helgina. Alls tóku 264 keppendur þátt frá fjórtán félögum: BH, KR, ÍA, TBA, TBR, TBS, Samherjum, Hamri, UDN, UMFA, UMFK, UMSB, UMFT og Keflavík. Sex leikmenn náðu þeim frábæra árangri að verða þrefaldir Íslandsmeistarar, Aron Ármann Jónsson TBR, Gunnar Bjarki Björnsson TBR, Kári Gunnarsson TBR, Margrét Jóhannsdóttir, TBR, Sigríður Árnadóttir TBR og Sunna Ösp Runólfsdóttir TBR. Lið ÍA var valið prúðasta lið mótsins.

Límtrésmót KR var haldið í mars. Mótið gekk mjög vel fyrir sig en um 55 leikmenn tóku þátt í mótinu frá fimm aðildarfélögum, BH, TBR, KR, UMFA og ÍA. Magnús Ingi Helgason TBR vann í einliðaleik karla, meistaraflokki og Rakel Jóhannesdóttir TBR í einliðaleik kvenna. Þetta var fyrsta fullorðnismótið sem Rakel vann og ljóst er að þarna er framtíðarstjarna í badminton en Rakel er 17 ára.

Í tilefni af 50 ára afmæli BH var Meistaramót Íslands að þessu sinni haldið í Hafnarfirði. Framkvæmd mótsins var í höndum BH-inga og gekk mjög vel fyrir sig og tókst að skapa frábæra umgjörð í Hafnarfirði. Tinna Helgadóttir TBR verður að teljast sigurvegari Meistaramótsins. Hún sigraði þrefalt á mótinu og bættist þar með í hóp sextán annarra leikmanna sem náð hafa þeim merka árangri í rúmlega 60 ára sögu mótsins. Auk þess að sigra í einliðaleik sigraði Tinna í tvíliðaleik með Erlu Björg Hafsteinsdóttur BH og tvenndarleik með Magnúsi Inga bróður sínum. Helgi Jóhannesson TBR og Magnús Ingi Helgason TBR urðu tvöfaldir Íslandsmeistarar. Helgi sigraði í einliðaleik, Magnús í tvenndarleik og saman sigruðu þeir svo í tvíliðaleiknum.

Apríl

Íslenska U19 landsliðið tók þátt í Evrópumeistaramóti sem fram fór í Mílanó á Ítalíu. Dagana 3.-7. apríl var liðakeppni og Ísland lenti í riðli með Póllandi, Eistlandi og Þýskalandi. Íslenska liðið sigrði Eistland 3-2 en tapaðu fyrir Póllandi 4-1 og Þýskalandi 5-0. Einstaklingskeppni fór fram frá 7.-12. apríl. Íslenska liðið skipuðu: Egill Guðlaugsson ÍA, Kári Gunnarsson TBR, Kjartan Pálsson TBR, Ragnar Harðarson ÍA, Elín Þóra Elíasdóttir TBR, Jóhanna Jóhannsdóttir TBR, Rakel Jóhannesdóttir TBR og Sunna Ösp Runólfsdóttir TBR.

U17 landsliðið tók þátt í Victor Olve mótinu í Antwerpen í Belgíu um páskana. Liðið skipuðu: Kristinn Ingi Guðjónsson BH, Ólafur Örn Guðmundsson BH, Nökkvi Rúnarsson TBR, Elín Þóra Elíasdóttir TBR, Jóhanna Jóhannsdóttir TBR, Rakel Jóhannesdóttir TBR og Sigrún María Valsdóttir BH. Mótin voru bæði mjög sterk en íslensku keppendunum gekk ágætlega á mótunum.

Meistaramót BH var haldið í apríl. Íslandsmeistarinn Helgi Jóhannesson TBR sigraði þrefalt á mótinu. Hann spilaði með Magnúsi Inga Helgasyni í tvíliðaleik og með Elínu Þóru Elíasdóttur í tvenndarleik. Í einliðaleik kvenna sigraði Karitas Ósk Ólafsdóttir ÍA. Í tvíliðaleik kvenna sigruðu Karitas Ósk Ólafsdóttir og Snjólaug Jóhannsdóttir TBR.

Maí

Íslenska landsliðið keppti á Sudirman Cup 2009, sem er Heimsmeistaramót landsliða. Mótið fór fram í 11. sinn og var haldið í borginni Guangzhou í Kína. Íslenska landsliðið skipuðu Helgi Jóhannesson TBR, Magnús Ingi Helgason TBR, Atli Jóhannesson TBR, Tinna Helgadóttir TBR, Snjólaug Jóhannsdóttir TBR og Karitas Ósk Ólafsdóttir ÍA. Íslenska liðið sigrði Portúgal 3-2 og Srí Lanka 4-1 en tapaði fyrir Litháen 2-3. Þá keppti það gegn Mongolíu og sigraði örugglega 5-0. Eftir sigur gegn Suður-Afríku 3-0 lenti Ísland í 5. sæti í 4. riðli.

Þing Badmintonsambandsins fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Ný stjórn tók til starfa en hana skipa Sigríður Bjarnadóttir formaður, Broddi Kristjánsson varaformaður, Brynja Kolbrún Pétursdóttir gjaldkeri, Þorsteinn Páll Hængsson ritari, María Skaftadóttir meðstjórnandi, Guðlaugur Gunnarsson meðstjórnandi og Vigdís Ásgeirsdóttir meðstjórnandi.

Stigahæstu leikmennirnir á Stjörnumótaröð Badmintonsambandsins voru verðlaunaðir á þingi BSÍ. Í meistaraflokki sigruðu Snjólaug Jóhannsdóttir TBR og Helgi Jóhannesson TBR en í öðru sæti voru Karitas Ósk Ólafsdóttir ÍA og Atli Jóhannesson TBR. Ásta Ægisdóttir TBR og Egill G. Guðlaugsson ÍA sigruðu í stigakeppni A-flokksins en í öðru sæti urðu Margrét Jóhannsdóttir TBR og Jónas Baldursson TBR.

Júní

Badmintonsamband Íslands fékk Stefán Má Ágústsson frjálsíþróttaþjálfara til að sjá um þol og styrktarþjálfun landsliðshópanna í sumar.

Tveir fulltrúar frá Badmintonsambandinu tóku þátt í Norrænni ráðstefnu á Laugarvatni, Ástvaldur Heiðarsson og Njörður Ludvigsson. Öll Norðurlöndin sendu fulltrúa í ýmsum íþróttagreinum. Aðal umfjöllunarefni ráðstefnunnar voru „íþróttir barna og unglinga".

Júlí

Evrópuskólinn fór fram í Karlskrona í Svíþjóð. Þátttakendur fyrir Íslands hönd voru þau Rakel Jóhannesdóttir TBR, Elín Þóra Elíasdóttir TBR, Berta Sandholt TBR, Jóhanna Jóhannsdóttir TBR, Egill Guðlaugsson ÍA, Haukur Stefánsson TBR, Kjartan Pálsson TBR og Jónas Baldursson TBR. Þátttakendur voru 87 talsins frá 26 löndum tóku þátt í sumarskólanum.

Ágúst

Árlegar æfingabúðir, Nordic Camp voru haldnar í Finnlandi. Þetta er samstarfsverkefni Badmintonsambanda á Norðurlöndum. Æfingabúðirnar voru í Helsingfors í Finnlandi dagana 5.-9. ágúst. Íslensku þátttakendurnir voru Gunnar Bjarki Björnsson TBR, Thomas Þór Thomsen TBR, Margrét Jóhannsdóttir TBR og Ivalu Birna Falck-Petersen TBA. Vignir Sigurðsson TBR fór með unglingunum til Finnlands þar sem hann tók þátt í þjálfaranámskeiði sem haldið var samhliða æfingabúðunum.

September

Ragna Ingólfsdóttir hóf keppni á ný eftir að hafa jafnað sig eftir aðgerð á hné þar sem gert var við slitið krossband og liðþófa.

Reykjavíkurmót unglinga var haldið í september. Þrjár stúlkur unnu það afrek að verða þrefaldir Reykjavíkurmeistarar, í einliðaleik, tvíliðaleik og í tvenndarleik, þær Sigríður Árnadóttir TBR í flokki U15, Margrét Jóhannsdóttir TBR í flokki U17 og Rakel Jóhannesdóttir TBR í flokki U19. Sjö einstaklingar urðu tvölfaldir Reykjavíkurmeistarar. Þau eru Davíð Bjarni Björnsson TBR í flokki U13 í einliðaleik og tvenndarleik, Alda Jónsdóttir TBR í flokki U13 í einliðaleik og tvenndarleik, Eyþór Andri Rúnarsson TBr í flokki U15 í einliðaleik og tvenndarleik, Gunnar Bjarki Björnsson TBR í flokki U15 í tvíliðaleik og tvenndarleik, Ólafur Örn Guðmundsson BH í flokki U17 í einliðaleik og tvíliðaleik og Kjartan Pálsson TBR í flokki U19 í tvíliðaleik og tvenndarleik.

Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson tóku þátt tveimur erlendum mótum, Bitburger Lux Open og Tékkland Open.

Broddi Kristjánsson vann það geisimikla afrek að verða Heimsmeistari öldinga í einliðaleik karla í aldursflokknum 45-49 ára. Hann sigraði Danann Kim Brodersen í oddalotu en Brodersen var í upphafi mótsins talinn sigurstranglegastur. Fyrstu lotunni tapaði Broddi 13-21 en vann síðan næstu tvær 21-15 og 21-14. Broddi hefur 43 sinnum orðið Íslandsmeistari í badminton, 14 sinnum í einliðaleik, 20 sinnum í tvíliðaleik og 9 sinnum í tvenndarleik. Þá hefur hann verið 167 sinum í landsliði fyrir Íslands hönd auk þess sem hann spilaði á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992. Að auki spiluðu Broddi og Þorsteinn Páll Hængsson í tvíliðaleik karla í flokki 40-44 ára og spiluðu fram í 8 liða úrslit.

Árni Þór Hallgrímsson endurnýjaði samning sinn við Badmintonsambandið sem landsliðsþjálfari til 30. apríl 2010.

Október

Atlamót ÍA var haldið í október eins og undanfarin ár. Sigurvegari í einliðaleik karla í meistaraflokki var Atli Jóhannesson. Sigurvegari í einliðaleik kvenna í meistaraflokki var Ragna Ingólfsdóttir. Atli og Ragna koma frá TBR. Í tvíliðaleik karla í meistaraflokki unnu Arthúr Geir Jósepsson og Einar Óskarsson frá TBR. Í tvíliðaleik kvenna í meistaraflokki unnu Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir frá TBR. Í tvenndarleik í meistaraflokki unnu Atli Jóhannesson og Snjólaug Jóhannsdóttir frá TBR.

Norrænar æfingabúðir voru haldnar á Íslandi í október. Þær stóðu yfir dagana 12. til 18. október og þátttakendur voru frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi og voru fyrir aldurshóp U13 til U17. Átta aðilar tóku þátt frá hverju landi. Árni Þór Hallgrímsson landsliðsþjálfari valdi íslenska hópinn. Í honum voru: Alda Jónsdóttir TBR, Davíð Bjarni Björnsson TBR, Margrét Jóhannsdóttir TBR, Sara Högnadóttir TBR, Gunnar Bjarki Björnsson TBR, María Árnadóttir TBR, Thomas Þór Thomsen TBR, Eyþór Andri Rúnarsson og Ólafur Örn Guðmundsson BH. Æfingar stóðu frá morgni til kvölds þessa daga. Síðustu tveir dagarnir voru helgaðir Vetrarmóti unglinga hjá TBR en þar tóku allir meðlimir æfingabúðanna þátt. Um leið og æfingabúðirnar stóðu yfir var þjálfaranámskeið á vegum Badminton Europe í gangi á Íslandi. Á það komu þrír þjálfarar frá Færeyjum, þrír frá Grænlandi og fjórir frá Íslandi. Þátttakendur frá Íslandi á þjálfaranámskeiðinu voru Þorbjörg Kristinsdóttir TBR, Írena Jónsdóttir ÍA, Hólmsteinn Valdimarsson Keflavík og Ívar Oddson TBR. Yfirþjálfari á námskeiðinu var Bjarne Nielsen landsliðsþjálfari Grænlands og eigandi "Top Direct Danish Badminton Academy".

Badmintonfélag Hafnarfjarðar varð 50 ára í október. Mikið var um að vera í tilefni af stórafmælinu og má þar helst nefna afmælismót BH en í því tóku þátt 67 leikmenn frá fimm félögum, BH, ÍA, TBR og UMFA. Auk þess spiluðu fjórir einstaklingar frá Danmörku á mótinu. Danir voru sigursælir á mótinu.

Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson kepptu á Kýpur International mótinu í október. Þau komust í undanúrslit mótsins í tvenndarleik.

Óskarsmót KR var haldið í október. Á mótinu var spilað í tvíliða- og tvenndarleik í Meistaraflokki og í A-flokki. Keppendur voru 58 frá fimm félögum, BH, ÍA, KR, TBR og UMFA. Bræðurnir Helgi og Atli Jóhannessynir TBR sigruðu í tvíliðaleik karla. Í tvíliðaleik kvenna sigruðu Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir TBR. Keppni í tvenndarleik lauk með sigri Helga Jóhannessonar og Elínar Þóru Elíasdóttur TBR.

TBR Opið var haldið í október. Margir keppendur sem spiluðu á mótinu tóku einnig þátt í Iceland International í nóvember. Í meistaraflokki sigraði í einliðaleik karla Atli Jóhannesson. Í tvíliðaleik karla, meistaraflokki, sigruðu Bjarki Stefánsson og Daníel Thomsen. Í einliðaleik kvenna, meistaraflokki, vann Ragna Ingólfsdóttir. Í tvíliðaleik kvenna báru Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir sigur úr bítum. Í meistaraflokki í tvenndarleik unnu Ragna Ingólfsdóttir og Daníel Thomsen.

Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir formaður BSÍ fór á samráðsfund Norðurlandanna í Danmörku. Fyrirhugað er að Nordic Camp verði á Íslandi í ágúst 2010.

Nóvember

Í nóvember var Iceland International haldið í TBR húsunum. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og gefur stig á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins. Alls tóku 95 keppendur frá níu þjóðum þátt í mótinu, 40 erlendir og 55 íslenskir. Umgjörð mótsins var öll hin glæsilegasta. Mótinu lauk með tvöföldum sigri Rögnu Ingólfsdóttur. Í einliðaleik sigraði hún Camillu Overgaard Danmörku í þremur lotum 21:14, 16:21 og 21:13. Í tvíliðaleik sigruðu hún og Snjólaug Jóhannsdóttir þær Brynju Pétursdóttur og Erlu Björg Hafsteinsdóttur í tveimur lotum 21:10 og 21:13. Önnur úrslit voru eftirfarandi: Niklas Hoff og Amaliea Fangel mættu Theis Christiansen og Joan Christiansen frá Danmörku í tvenndarleik. Leikurinn fór í oddalotu og höfðu Theis og Joan betur 23:21, 20:22 og 21:16. Í einliðaleik karla léku Christian Lind Thomsen Danmörku og Kasper Ödum Danmörku. Christian Lind vann í tveimur lotum 21:8 og 21:17. Í tvíliðaleik karla unnu Anders Skaarup Rasmussen og René Lindskov þá Christopher Bruun Jensen og Thomas Fynbo 21:16 og 21:16.

Unglingalandsliðið skipað keppendum yngri en 17 ára hélt til Slóveníu til að taka þátt í Evrópumeistaramóti U17. Lið Íslands skipuðu Thomas Þór Thomsen TBR, Kristinn Ingi Gunnarsson BH, Ólafur Örn Guðmundsson BH, Gunnar Bjarki Björnsson TBR, Elisabeth Christiansen TBR, Margrét Jóhannsdóttir TBR, María Árnadóttir TBR og Sara Högnadóttir TBR. Fararstjóri liðsins var Jóhann Kjartansson yfirþjálfari TBR en landsliðsþjálfarinn Árni Þór Hallgrímsson varð eftir á Íslandi með A-landsliði Íslands. Mótið gekk ágætlega en Ísland lenti í geisisterkum riðli með Rússum, Tékkum og Litháum og tapaði öllum leikjum sínum. Helgi Jóhannesson keppti á tveimur alþjóðlegum mótum í Noregi, Noregur International og Welsh International.

Desember

Á haustönninni spiluðu þrír íslenskir badmintonspilarar í dönsku deildinni. Tinna Helgadóttir spilaði með úrvalsdeildarliði Greve sem trónir nú á toppi dönsku deildarinnar. Magnús Ingi Helgason spilar með Greve2 sem spilar í 2. deild og Helgi Jóhannesson spilar með annarrar deildar liðinu Randers. Randers fer upp um deild en liðið er í 2. sæti annarrar deildar.

Auk ofangreindra viðburða á árinu 2009 fóru fram tugir badmintonmóta á vegum aðildarfélaga BSÍ.

Landsliðshópar Badmintonsambandsins æfðu einnig öturlega á árinu bæði á stökum æfingum og í æfingabúðum yfir helgar.

Framundan er nýtt ár með nýjum og krefjandi verkefnum fyrir badmintonfólk um allt land. Ljóst er að árið mun einkennast af aðhaldi í rekstri. Reynt verður eftir fremsta megni að halda hefðbundnum viðburðum sambandsins í föstum skorðum en óhjákvæmilega mun badmintonfólk finna fyrir einhverjum niðurskurði.

Fyrsta verkefni landsliðanna á nýju ári er Evrópumótið sem fer fram í Manchester á Englandi.

Stjórn og starfsfólk Badmintonsambandsins sendir badmintonfólki og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilegt ár og þakkir fyrir samstarfið á árinu sem nú er senn á enda.

Skrifað 31. desember 2009

Skrifađ 31. desember, 2009
mg