Til hamingju með daginn!

Badmintonsamband Íslands var stofnað 5.nóvember 1967 og er því 40 ára í dag. BSÍ óskar badmintonfólki um allt land til hamingju með daginn.

Á íþróttaþingi ÍSÍ 1966, sem haldið var á Ísafirði, var samþykkt tillaga frá framkvæmdastjórn ÍSÍ um að vinna að stofnun sérsambands um badminton. Iðkun badmintons hafði farið vaxandi árin á undan og búið var að stofna mörg félög sem iðkuðu greinina. Framkvæmdastjórn ÍSÍ skipaði undirbúningsnefnd eftir íþróttaþingið sem átti að vinna að undirbúningi fyrir stofnun sambandsins. Í nefndinni voru þeir Kristján Benjamínsson (faðir Brodda Kristjánssonar), Guðjón Einarsson, Sveinn Björnsson, Kristján Benediktsson, Þórir Jónsson, Óskar Guðmundsson og Hermann Guðmundsson. Undirbúningur nefndarinnar gekk vel og var stofnþing haldið ári síðar eða 5.nóvember 1967.

Á stofnþinginu 5.nóvember kom tillaga frá Íþróttabandalagi Akureyrar um að íþróttin myndi bera nafnið hnit í stað badmintons. Tillagan var felld með jöfnum atkvæðum og því notum við nafnið badminton í dag.

Í byrjun fór mestur tími stjórnar í að skipta verkum niður á fólk semja reglur o.s.frv. Í fyrstu stjórn Badmintonsambandsins sátu Kristján Benjamínsson (formaður), Óskar Guðmundsson, Ragnar Thorsteinsson, Ormar Skeggjason, Ragnar Georgsson, Birgir Hermannsson , Eyjólfur Bjarnason og Hermann Árnason. Fljótlega eftir stofnun sambandsins fóru umsvifin að aukast. Fyrsti landsleikurinn var leikinn árið 1973 og Norðurlandamót var haldið hér á landi í fyrsta skiptið árið 1976.

Fertugasta afmælisár Badmintonsambandsins hefur verið mjög viðburðaríkt. Í janúar hélt sambandið Evrópukeppni B-þjóða, Helvetia Cup, í Laugardalshöll þar sem íslenska landsliðið sigraði með glæsilegum hætti. Í haust var ráðinn nýr starfsmaður til sambandsins sem sér um heimasíðu, útbreiðslu- og fræðslumál. Nú eru því í fyrsta skipti tveir starfsmenn starfandi á skrifstofu sambandsins. Þá hefur Ragna Ingólfsdóttir badmintonkona staðið sig sérstaklega vel á árinu og má segja að hún hafi gefið BSÍ frábæra afmælisgjöf með því að sigra Opna Ungverska mótið um helgina. Um næstu helgi verður síðan sannkölluð badmintonveisla í TBR-húsunum en þá fer fram alþjóðlega badmintonmótið Iceland Express International. Á laugardeginum verður blásið til afmælishátíðar þar sem öllu badmintonáhugafólki verður boðið til kaffiveislu í tilefni afmælisins. Smellið hér til að ná í boðskortið ykkar.

Skrifað 5. nóvember, 2007
ALS