Iceland International 2009

Í dag hófst Iceland International í TBR húsunum. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og gefur stig á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins. Alls 95 keppendur frá 9 þjóðum taka þátt í mótinu, 40 erlendir og 55 íslenskir. Keppni hófst kl. 9:00 með forkeppni í einliðaleik karla og verður keppt til kl. 22:00 í kvöld. Á morgun laugardag hefst keppni í 8 liða úrslitum kl. 10:00 og undanúrslit hefjast svo kl. 16:30. Úrslitaleikirnir verða spilaðir á sunnudag og hefjast kl. 10:00.
Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason, tveir fremstu badmintonspilarar landsins í karlaflokki, féllu báðir úr keppni í 1. umferð í einliðaleik í dag.

Helgi mætti Zhou Jun Xuan frá Tyrklandi og tapaði í tveimur lotum, 15:21 og 22:24.
Magnús Ingi mætti Robert Georg frá Þýskalandi og tapaði eftir jafna baráttu, 18:21 og 19:21.
Kári Gunnarsson vann Marco Mondavio frá Ítalíu í þremur lotum, 18:21, 21:11 og 21:12 og er kominn í 2. umferð.

Karitas Ósk Ólafsdóttir sigraði Trine Christiansen frá Danmörku í tveimur lotum 21:16 og 21:18 og leikur á morgun á móti Söru B Kverno frá Noregi.

Ragna Ingólfsdóttir sat hjá í fyrstu umferð í einliðaleik en spilar við Christina Andersen frá Danmörku og hefst leikurinn kl. 19:20 í kvöld.

Helgi og Magnús leika saman í dag í tvíliðaleik en þeir sátu hjá í fyrstu umferð. Þeir mæta Tyrkjunum Murat Sen og Zhou Jun Xuan kl. 20:40.

Magnús og Elín Þóra Elíasdóttir eru komin í þriðju umferð í tvenndarleik eftir sigur á Patrick Kraemer Þýskalandi og Mille Kongstad frá Grænlandi og næsti leikur þeirra er á morgun á móti Dönunum Dennis Holm Hansen og Rikke Thune.

 

Skrifað 6. nóvember, 2009
mg