Annar dagur Nordic Camp

Dagurinn hófst klukkan hálf átta með morgunmat á hótelinu áður en lagt var að stað í íþróttahöllina í Helsingfors.

Fyrsta æfing dagsins var um tvíliðaleik og lögð áhersla á uppgjafir og ráðast á svokallaðan þriðja bolta (sem sagt uppgjöf, móttaka og svo að klára boltann), að taka á móti uppgjöf og flatt spil áður en farið var í tvíliðaleik. Æfingin heppnaðist mjög vel og krakkarnir voru mjög ánægð með æfinguna, sem kenndi þeim nýja hluti.

Þá var komið að hádegismat og hvíld áður en lagt var af stað í aðra æfingu dagsins. Hún var með svolítið öðru sniði þar sem hún var ekki um badminton heldur hreyfingu líkamans, hvernig maður á að beita honum, stökkva, lenda og annað slíkt til þess að byggja líkamann sem best og réttast. Margar mismunandi æfingar voru gerðar á þessari æfingu sem voru eilítið flóknar en skemmtilegar.

Þriðja æfingin, um kvöldið, hófst með því að krökkunum var skipt í þrjá hópa. Þar fengu þau að velja sér æfingu sem þau töldu að þau væru slök í. Síðan var einn þjálfari með hvern hóp og hjálpaði þeim að ná tökum á veikleikum þeirra. Eftir að einstaklingsæfingum lauk hófst einliðaleiksspil og stóðu íslensku krakkarnir sig með stakri prýði og unnu nánast alla leikina.

Eftir langan dag og eftir að komið var heim á hótel fór íslenska liðið út í göngutúr fyrir svefninn.

Skrifað 8. ágúst, 2009
mg