Ađalfundur Badmintonfélags Hafnarfjarđar gekk vel

Sunnudaginn 24. maí var aðalfundur Badmintonfélags Hafnarfjarðar haldinn í fundarsal Samfylkingarinnar við Strandgötu.

Á aðalfundinum varð BH að sannkölluðu spaðafélagi Íslands því stofnuð var ný deild innan félagsins, borðtennisdeild. Undir merkjum Badmintonfélags Hafnarfjarðar er því nú hægt að iðka og keppa í fjórum spaðagreinum; badminton, tennis, skvassi og borðtennis. Ekkert annað íþróttafélag á Íslandi hefur allar spaðaíþróttagreinar landsins innan sinna raða.

Töluverðar breytingar voru gerðar á lögum félagsins en fram að aðalfundi höfðu verið í gildi upphafleg lög félagsins frá 1959. Lögin sem áður voru aðeins hugsuð fyrir félag með badminton innan sinna vébanda eru nú svipuð lögum annarra fjölgreinafélaga hér á landi.

Hörður Þorsteinsson var endurkjörinn formaður félagsins en með honum í framkvæmdastjórn eru þau Kristján Daníelsson, varaformaður, og Irena Ásdís Óskarsdóttir, gjaldkeri. Stjórn félagsins verður skipuð þremenningunum áðurnefndu ásamt einum fulltrúa úr hverri deild sem eftir á að tilnefna.

Starf félagsins gekk mjög vel á tímabilinu sem nú var gert upp. Sjaldan eða aldrei hafa eins margir iðkað badminton í Hafnarfirði og var starfið blómlegt og viðburðaríkt. Rekstur félagsins gekk mjög vel á árinu 2008 og varð góður hagnaður við uppgjör ársins.

Hér má nálgast heimasíðu BH.

Skrifađ 4. júní, 2009
mg