Danir unnu Evrópumeistaramót unglinga U-19 í Mílanó

Danir unnu 3-0 sigur á Hollendingum í úrslitum á Evrópumeistaramóti unglinga í Mílanó á Ítalíu en mótið er nú haldið í 21 sinn. Fyrir úrslitaviðureignina hölluðust fleiri að því að Danir myndu vinna í einliðaleikjunum tveimur en Hollendingar væru líklegri til að innbyrða sigur í tvenndarleiknum. 

Í einliðaleik karla áttust við Emil Holst frá Danmörku og Jordy Hilbink frá Hollandi. Jordy spilaði frábærlega og komst í 20-16 en Emil gafst ekki upp og tókst með mikilli seiglu að vinna fyrstu lotu 25-23.  Í annarri lotu komst Emil í 16-10 en Jodry jafnaði leikinn 16-16 og aftur var jafnt 20-20.  Taugar Emil reyndust sterkari og hann vann lotuna 22-20 og leikinn 2-0. 

Í einliðaleika kvenna áttust við Anne Hald frá Danmörku og Yik Man Wong frá Hollandi.  Anne hafði spilað í mótinu af miklum styrk og þótti sigurstranglegri.  Anne vann fyrstu lotu örugglega 21-15.  Aðra lotu vann Anne einnig en naumlega þó og leikinn þar með 2-0. 

Í tvenndarleiknum áttu Hollendingarnir Jacco Arends og Selena Piek í höggi við Danina sterku Anne Skelbaek og Mads Pedersen.  Anne og Mads hófu leikinn af miklu kappi og unnu fyrstu lotuna.  Í annari lotu var jafnt á flestum tölum alveg þangað til Mads Pedersen gerði sig sekan um mistök í lok lotunnar sem urðu þess valdandi að Hollendingar unnu hana.  Anne og Mads spiluðu af gríðarlegu öryggi framan af þriðju lotu og voru í forystu 19-10.  Þá hrökk Selena Piek í gírinn og skyndilega var staðan orðin 19-17.  Lengra komust Hollendingarnir ekki og Danir kláruðu leikinn 2-1. 

Danir fengu gullverðlaunin og sigurstyttuna afhenda frá Tom Bacher forseta Badmintonsambands Evrópu og Alberto Miglietta nýkjörnum varaforseta og formanni Badmintonsambands Ítalíu.  Bronsverðlaun komu í hlut Þýskalands og Englands fyrir að hafa komist í undanúrslit.  

Einstaklingskeppnin hefst í kvöld, þriðjudagskvöld, og stendur fram á sunnudag. Það má nálgast niðurröðun og tímasetningar hér.

Skrifað 7. apríl, 2009
mg