Ragna númer 42 á heimslistanum

Alþjóða Badmintonsambandið (BWF) gaf út nýjan heimslista í dag. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir er númer 42 á nýja listanum sem er nánast engin breyting frá því í síðustu viku en þá var hún númer 41 á listanum.

Ragna hefur ferðast víðsvegar um heiminn í nokkur ár til að ná því takmarki sínu að vinna sér rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Reikna má með að hún þurfi að vera á topp 50 heimslistans til að það takmark náist og má því segja að staða Rögnu sé mjög góð þessa dagana. Hún þarf þó að halda vel á spöðunum alveg þangað til í maí 2008 því öll alþjóðleg mót sem gefa stig á heimslista telja í baráttunni um sæti á leikunum. Venju samkvæmt verður baráttan í mótum harðari eftir því sem nær dregur Ólympíuleikunum og því mikið álag framundan hjá Rögnu.

Heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins er hægt að skoða með því að smella hér. 

Skrifað 20. september, 2007
ALS