Tinna leikur til úrslita í þremur greinum

Á morgun sunnudag verður leikið til úrslita á Meistaramóti Íslands í badminton. Keppni í meistaraflokki hefst kl. 13.50 og verður í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. Úrslitaleikir í A, B og öldungaflokkum hefjast kl. 9.00. Áætlað er að þeim ljúki um kl. 11.30 og verður verðlaunaafhending í kjölfarið.

Í einliðaleik karla leika til úrslita Íslandsmeistari síðasta árs, Helgi Jóhannesson, TBR, og Hugi Heimirsson, TBR. Hugi flutti með fjölskyldu sinni til Svíþjóðar 6 ára og hefur því búið í Svíþjóð stærstan hluta ævinnar. Hann keppti fyrir Svíþjóð í alþjóðlegum mótum á árunum 2003-2006 og var um tíma í kringum 70. sætið á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins. Hann hefur ekki sést mikið í badmintonkeppnum síðan þá en er nú kominn af stað aftur af miklum krafti og sigraði Magnús Inga Helgason í undanúrslitunum í dag. Helgi vann bróður sinn Atla Jóhannesson í hinum undanúrslitaleiknum.

Þær Karitas Ósk Ólafsdóttir, ÍA, og Tinna Helgadóttir, TBR, mætast í úrslitunum í einliðaleik kvenna. Þetta er fyrsti úrslitaleikur Karitasar en í þriðja sinn sem Tinna spilar til úrslita í meistaraflokki. Karitas er efst á íslenska styrkleikalistanum í einliðaleik kvenna og hefur verið framarlega í mótum vetrarins. Tinna æfir og keppir með danska úrvalsdeildarliðinu Greve þar sem hún hefur náð eftirtektarverðum árangri í vetur.

Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason, TBR, mæta þeim Brodda Kristjánssyni og Þorsteini Páli Hængssyni, TBR, í úrslitaleiknum í tvíliðaleik karla. Helgi og Magnús Ingi hafa sigrað í tvíliðaleiknum tvö síðustu ár og vinna sér því Íslandsmeistarabikarana til eignar sigri þeir í þriðja sinn í röð. Þeir félagar hafa náð frábærum árangri á alþjóðlegum mótum í vetur og hafa stokkið upp heimslistann að undanförnu. Broddi og Þorsteinn Páll hafa áralanga reynslu af badmintonkeppni. Broddi hefur tuttugu sinnum orðið Íslandsmeistari í tvíliðaleik og Þorsteinn Páll fimm sinnum. Nýjasta afrek Brodda er hinsvegar silfurverðlaun á Evrópumóti öldunga.

Til úrslita í tvíliðaleik kvenna leika þær Vigdís Ásgeirsdóttir og Elsa Nielsen, TBR, annarsvegar og Erla Hafsteinsdóttir, BH, og Tinna Helgadóttir, TBR hinsvegar. Vigdís hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari í tvíliðaleik og Elsa sjö sinnum en saman hafa þær sigrað fjórum sinnum. Tinna og Erla hafa aldrei orðið Íslandsmeistarar í tvíliðaleik.

Íslandsmeistarar síðasta árs í tvenndarleik systkinin Tinna og Magnús Ingi Helgabörn mæta í úrslitum þeim gamalreyndu Brodda Kristjánssyni og Elsu Nielsen. Broddi hefur níu sinnum orðið Íslandsmeistari í tvenndarleik og Elsa þrisvar sinnum. Tvisvar hafa þau unnið saman. Systikinin Tinna og Magnús Ingi hafa tvisvar hampað Íslandsmeistaratitlinum í tvenndarleik, árin 2005 og 2008.

Tinna Helgadóttir leikur til úrslita í þremur greinum á morgun. Hún á því möguleika á að bætast í hóp sextán annarra leikmanna sem unnið hafa þrefallt á Meistaramóti Íslands í badminton. Sjá nánar um Íslandsmeistara í badminton frá upphafi með því að smella hér.

Smellið hér til að skoða dagskrá úrslitaleikjanna á morgun.

Skrifað 28. mars, 2009
BH