Meistaramótið í fyrsta sinn í Hafnarfirði

Meistaramót Íslands í badminton verður haldið í Íþróttahúsinu við Strandgötu um næstu helgi. Þetta er fyrsta sinn sem Meistaramót Íslands er haldið í Hafnarfirði en tilefnið er 50 ára afmæli Badmintonfélags Hafnarfjarðar.

Fyrst var keppt um Íslandsmeistaratitla í badminton árið 1949 en þá var keppt í Íþróttahúsi Háskólans. Fyrstu árin fór mótið nokkuð jafnt á milli Reykjavíkur og Stykkishólms enda bestu leikmennirnir frá þessum landshlutum. Síðan í kringum 1970 hefur mótið hinsvegar nær eingöngu farið fram í Reykjavík, oftast í Laugardalshöll en síðastliðin 12 ár í TBR húsunum. Síðast var Meistaramótið haldið utan Reykjavíkur á Akranesi árið 1985.

Mikið hefur verið lagt í að bæta aðstöðu í Íþróttahúsinu við Strandgötu vegna Meistaramótsins um helgina. Keppt verður á fimm mottum sem sérstaklega eru gerðar fyrir badminton. Lýsing í húsinu hefur einnig verið bætt til muna sem setur allt annan svip á það. 

Milli klukkan 14 og 16 á sunnudag þegar leikið verður til úrslita í meistaraflokki mun Badmintonfélag Hafnarfjarðar bjóða áhorfendum uppá vöfflur og kaffi. Þá fá allir krakkar Svala og blöðru. Það er því sannarlega ástæða fyrir badmintonáhugafólk að líta við í Hafnarfjörðinn um helgina.

 

50 ára afmælismerki Badmintonfélags Hafnarfjarðar

 

Skrifað 26. mars, 2009
BH