EM landsliđa hefst á morgun

Á morgun þriðjudaginn 10.febrúar hefst Evrópumót landsliða í badminton í borginni Liverpool á Englandi. Alls taka 32 þjóðir þátt í keppninni og þeirra á meðal er íslenska landsliðið. Reiknað er með að fjöldi leikmanna sem spila fyrir hönd þjóða sinna á mótinu verði á bilinu tvö til þrjú hundruð.

Landsliðsþjálfari Íslands, Árni Þór Hallgrímsson, valdi eftirfarandi leikmenn í íslenska landsliðið sem tekur þátt í mótinu:

Atli Jóhannesson, TBR - 9 landsleikir
Helgi Jóhannesson, TBR - 45 landsleikir
Magnús Ingi Helgason, TBR - 28 landsleikir

Karitas Ósk Ólafsdóttir, ÍA - 0 landsleikir
Snjólaug Jóhannsdóttir, TBR - 3 landsleikir
Tinna Helgadóttir, TBR - 27 landsleikir

Ragna Ingólfsdóttir, Katrín Atladóttir og Sara Jónsdóttir sem allar hafa verið í íslenska landsliðinu um árabil gátu ekki gefið kost á sér í Evrópumótið að þessu sinni. Það er því ungt og óreynt íslenskt kvennalið sem tekur þátt í mótinu ásamt nokkuð reyndum karlspilurum.

Þjóðunum 32 sem þátt taka í mótinu hefur verið skipt niður í átta fjögurra liða riðla. Ísland er í 7. riðli með Ítalíu, Ungverjalandi og Úkraínu sem fyrirfram er talin sterkasta þjóðin í riðlinum. Segja má að röðunin sé nokkuð góð fyrir Ísland því Úkraína er talið veikast af þjóðunum átta sem raðað er í mótið. Á síðasta Evrópumóti lenti Ísland í 13.sæti og hélt sér uppi á meðal A-þjóða Evrópu. Í ár leika A og B þjóðirnar hinsvegar saman og komast aðeins sigurvegararnir í hverjum riðli áfram í útsláttarkeppni um Evrópumeistaratitilinn.

Miðað við stöðu mála á pappírunum verður að teljast ólíklegt að íslenska landsliðinu takist að komast uppúr riðlakeppni mótsins. Úkraína og Ísland hafa tvisvar mæst í badmintonlandsleik þar sem Ísland beið lægri hlut 0-5 í bæði skiptin. Leikmenn Úkraínu eru almennt ofar á heimslistum heldur en þeir íslensku og því taldir líklegri sigurvegarar. Hinsvegar er góðir möguleikar á því að íslenska liðinu takist að vera í öðru sæti í riðlinum því íslenskt landslið hefur aldrei tapað fyrir Ítalíu í landsleik og oftar unnið Ungverja heldur en tapað fyrir þeim.

Leikdagskrá íslenska landsliðsins:

Þriðjudagurinn 10.febrúar kl. 18.00 Ísland - Ungverjaland
Miðvikudagurinn 11.febrúar kl. 14.00 Ísland - Ítalía
Fimmtudagurinn 12.febrúar kl. 10.00 Ísland - Úkraína

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á mótinu.

Skrifađ 9. febrúar, 2009
ALS