Helgi og Magnús Ingi á uppleið

Alþjóða Badmintonsambandið (BWF) gaf út nýjan heimslista í dag eins og ávalt er gert á fimmtudögum. Sex íslenskir leikmenn eru á heimslistanum þessa vikuna.

Þar sem að heimslisti BWF er reiknaður útfrá tíu bestu mótum síðastliðins árs gefur hann ekki góða mynd af getu þeirra leikmanna sem ekki keppa á 10-12 mótum á ári. Þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason eru einu Íslendingarnir sem hafa verið á faraldsfæti undanfarin misseri og því er mest spennandi að fylgjast með þróun stöðu þeirra á listanum.

Helgi og Magnús Ingi hafa verið á hraðri uppleið heimslistans í tvíliðaleik í allan vetur. Í haust voru þeir ekki inni á listanum en hafa svo þotið upp eftir góðan árangur í mótum og þá sérstaklega á Kýpur og í Wales. Í lok árs 2008 voru þeir félagar nr. 142 á heimslistanum en eru númer 99 á listanum í dag.

Í einliðaleik hefur ekki gengið eins vel hjá íslensku strákunum en Magnús Ingi er nr. 211 og Helgi nr. 350 í þeirri grein. Þeir hafa þó hækkað töluvert á einliðaleikslistanum síðan í haust og má búast við að það gangi ennþá hraðar hjá þeim að hækka sig þegar þeir fara að losna við að þurfa að taka þátt í undankeppnum allra móta sem þeir taka þátt í.

Ólympíufarinn Ragna Ingólfsdóttir er númer 136 á heimslistanum í einliðaleik kvenna sem gefinn var út í dag. Ragna hefur eins og kunnugt er ekki tekið þátt í alþjóðlegum mótum síðan í sumar og fer staða hennar því lækkandi með hverjum lista. Vonir eru bundnar við að Ragna fari á fullt í alþjóðlegri mótaþátttöku næsta haust og þá mun hún án efa skjótast upp listann enda er hún klárlega á því getustigi að eiga að vera amk á topp 50 heimslistans.

Smellið hér til að skoða heimslista BWF.

Skrifað 29. janúar, 2009
ALS