TBR-ingar sigursælir í Danmörku

Keppnishópar Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur hafa verið á faraldsfæti nú í byrjun árs. Haldið var í þremur hópum til keppni í Danmörku. Unglingahópur leikmanna í U17 og U19 flokkunum tóku þátt í unglingamóti í Rödby laugardaginn 24.janúar og meistara og A flokks leikmenn kepptu á móti í Hróarskeldu 17.-18.janúar. Þá tóku þau Tinna Helgadóttir, Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason þátt í móti í Hilleröd 24.-25.janúar. Allir hópar voru framarlega í mótunum sem þeir tóku þátt í og komu heim með mörg verðlaun í farteskinu.

Á mótinu í Hróarskeldu 17.-18.janúar tóku meistaraflokksleikmennirnir þátt í danska B-flokknum sem er fjórði styrkleikaflokkurinn þar í landi. Hjá strákunum stóð Atli Jóhannesson sig best og komst í átta liða úrslit í einliðaleik en þeir Bjarki Stefánsson og Daníel Thomsen komust í sextán liða úrslit. Í tvíliðaleik komust þeir Bjarki og Daníel í undanúrslit. Hjá stelpunum sigraði Sjónlaug Jóhannsdóttir í einliðaleik en Hrefna Rós Matthíasdóttir og Halldóra Jóhannsdóttir komust í undanúrslit. Þá komust þær Hanna María Guðbjartsdóttir og Þorbjörg Kristinsdóttir í átta liða úrslit. Í tvíliðaleiknum stóðu Hanna María og Hrefna Rós sig best en þær urðu í öðru sæti. Systurnar Snjólaug og Halldóra komust í undanúrslit í tvíliðaleiknum. Í tvenndarleik unnu þau Snjólaug og Atli til silfurverðlauna. A-flokks leikmennirnir Vignir Sigurðsson og Birkir Steinn Erlingsson léku í D-flokki og komust í átta liða úrslit í bæði einliða- og tvíliðaleik.

TBR unglingarnir báru höfuð og herðar yfir aðra þátttakendur á mótinu í Rödby 24.janúar. Rakel Jóhannesdóttir sigraði í einliðaleik í U17-M (næst efsti styrkleikaflokkur) og Elín Þóra Elíasdóttir var í öðru sæti í sama flokki. Þá sigruðu þær Rakel og Elín líka í tvíliðaleik. Í tvenndarleik í U17-M unnu Jóhanna Jóhannsdóttir og Nökkvi Rúnarsson til silfurverðlauna. Í U17-B flokknum sigraði María Árnadóttir þrefalt en Elísabeth Christiensen spilaði með henni í tvíliðaleik. Sunna Ösp Runólfsdóttir sigraði í einliðaleik í U19-A flokknum og Ásta Ægisdóttir varð í öðru sæti. Sunna sigraði einnig í tvíliðaleik með Bertu Sandholt og Ásta sigraði í tvenndarleik með Jónasi Baldurssyni. Þá komst Pétur Hemmingsen í undanúrslit í einliðaleik í sama flokki.

Mótið sem Magnús Ingi, Helgi og Tinna kepptu á í Hilleröd var mjög sterkt en það var M mót sem er næst efsti styrkleikaflokkur móta í Danmörku. Margir af þátttakendunum í mótinu ná reglulega góðum árangri á mótum á Evrópumótaröðinni sem sýnir hvað mótin eru sterk í Danmörku. Þrátt fyrir sterka andstæðinga náðu TBR-ingarnir engu að síður góðum árangri enda reynslumikið landsliðsfólk hér á ferð. Magnús Ingi og Helgi sigruðu í tvíliðaleiknum á mótinu og Tinna komst í undanúrslit í einliðaleik. Þá komust systkinin Tinna og Magnús Ingi í átta liða úrslit í tvenndarleiknum og það sama gerði Helgi í einliðaleik.

Frábær árangur hjá keppnisfólki TBR!

Skrifað 28. janúar, 2009
ALS