Helgi og Magnús Ingi í aðra umferð undankeppninnar

Íslandsmeistarinn Helgi Jóhannesson er kominn í aðra umferð undankeppni alþjóðlega badmintonmótsins Swedish Internationals Stockholm. Hann sigraði í fyrstu umferðinni Hollendinginn Rein Ridder í þremur lotum. Fyrstu lotuna sigraði Helgi 21-15, aðra lotuna sigraði Ridder 21-13 og oddalotuna sigraði Helgi nokkuð örugglega 21-10. Í annari umferð undankeppninnar mætir Helgi Finnanum Aki Kananen. Leikurinn hefst kl. 14.20 að íslenskum tíma.

Magnús Ingi Helgason sigraði einnig andstæðing sinn í fyrstu umferð undankeppni einliðaleiks. Hann mætti Þjóðverjanum Andreas Lindner í jöfnum og spennandi þriggja lotu leik. Fyrstu lotuna vann Magnús Ingi 21-11 en aðra lotuna sigraði Lindner 21-13. Oddalotan var jöfn og spennandi og sigraði Magnús Ingi í framlengingu 22-20. Í annari umferð undankeppninnar mætir Magnús Ingi Svíanum Kristian Karttunen. Karttunen er annar besti einliðaleiksmaður Svía og 100 sætum ofar en Magnús á heimslistanum. Fyrirfram er því Karttunen talin sigurstranglegri í viðureigninni. Leikur Magnúsar Inga hefst kl. 15.30 að íslenskum tíma.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála Swedish Internationals Stockholm.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Skrifað 22. janúar, 2009
ALS