Helgi og Magnús Ingi úr leik í Eistlandi

Íslandsmeistararnir í tvíliðaleik karla þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason eru úr leik á alþjóðlega badmintonmótinu Yonex Estonian International sem nú fer fram í Tallin. Tvíliðaleikur þeirra við Frakkana Laurent Constantin og Sylvain Grosjean í fyrstu umferðinni eftir hádegið í dag var æsispennandi og munaði minnstu að íslensku strákarnir kæmust áfram í aðra umferð mótsins.

Fyrstu lotuna unnu Helgi og Magnús Ingi 21-19 eftir mjög jafnt spil. Í annari lotunni voru Frakkarnir hinsvegar mun sterkari og höfðu yfirhöndina allann tímann og sigruðu 21-11. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Í oddalotunni voru þeir Constantin og Grosjean með örlitla forystu frá byrjun þar til íslensku strákarnir náðu að jafna í 20-20 og knýja fram framlengingu sem endaði með naumum 23-21 sigri Frakkanna.

Helgi féll úr keppni í 3.umferð undankeppni einliðaleiks í gær og Magnús Ingi varð að játa sig sigraðan í fyrstu umferð aðal keppninnar í morgun. Hægt er að fylgjast með gangi mála á Yonex Estonian International með því að smella hér.

Næst halda þeir félagar til Svíþjóðar og taka þátt í Swedish Internationals Stockholm sem hefst næstkomandi fimmtudag. Smellið hér til að skoða heimasíðu mótsins.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Skrifað 16. janúar, 2009
ALS