Magnús og Helgi í Eistlandi

Landsliðsmennirnir Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson eru nú komnir til borgarinnar Tallin í Eistlandi þar sem þeir taka þátt í alþjóðlegu badmintonmóti. Mótið sem þeir taka þátt í, Yonex Estonian International 2009 er hluti af Evrópumótaröðinni og gefur stig á heimslista BWF. 

Helgi hefur leik á morgun fimmtudag þar sem hann mun taka þátt í undankeppni mótsins í einliðaleik. Í undankeppninni keppa 56 leikmenn um átta laus sæti í aðal mótinu sem hefst á föstudag. Mótherji Helga í fyrstu umferð er Finninn Jani Häkkinen. Häkkinen hefur ekki tekið þátt í mörgum alþjóðlegum mótum undanfarin misseri en þar sem hann hefur tekið þátt hefur honum ekki tekist að komast áfram úr undankeppni. Helgi hefur komist áfram úr undankeppnum og unnið marga leiki í alþjóðlegum mótum í vetur og ætti því að vera sigurstranglegri í viðureigninni. Helgi þarf að leggja þrjá andstæðinga af velli á morgun til að tryggja sér þátttökurétt í aðal mótinu.

Magnús Ingi var frekar óheppin með andstæðing í fyrstu umferð mótsins í Eistlandi en hann mætir Rússanum Ivan Sozonov. Fyrirfram er Sozonov talinn fjórði sterkasti leikmaður mótsins en hann er númer 83 á heimslistanum og hefur náð mjög góðum árangri á mótum undanfarin misseri. Hann komst meðal annars í átta liða úrslit á mjög sterku móti í Rússlandi á síðasta ári og í undanúrslit á móti í Búlgaríu. Magnús Ingi og Sozonov mætast kl. 8.50 að íslenskum tíma á föstudag.

Andstæðingar Magnúsar Inga og Helga í fyrstu umferð tvíliðaleikskeppninnar í Tallin verða Frakkarnir Laurent Constantin og Sylvain Grosjean. Þeir Helgi og Magnús Ingi eru númer 118 á heimslistanum en Frakkarnir númer 163. Fyrirfram talið eru því nokkuð góðar líkur á því að íslensku strákarnir komist áfram í aðra umferðina í tvíliðaleik. Leikurinn fer fram á föstudag kl. 13.30.

Smellið hér til að skoða niðurröðun og tímasetningar Yonex Estonian International 2009 og hér til að skoða heimasíðu mótsins.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Skrifað 14. janúar, 2009
ALS