Breytingar á lyfjareglum

Þann 1.janúar síðastliðin tóku gildi nýjar reglur um lyfjanotkun í íþróttum um allan heim. Þó nokkrar breytingar hafa verið gerðar á fyrri reglum eins og t.d. aukin staðfesta í refsingum og meiri sveigjanleiki hjá yngri iðkendum. Þá hafa heimildir til fjársekta verið auknar auk þess sem hraði í afgreiðslu mála hefur verið aukinn.

Lyfjaráð ÍSÍ sér um að taka lyfjapróf á íþróttafólki á Íslandi. Prófum hefur fjölgað mjög mikið síðustu ár og er stefnan að fjölga þeim enn frekar á næstu árum.

Badmintonfólk sem reglulega tekur þátt í keppni hér á landi getur átt von á að vera boðað í lyfjapróf bæði við æfingar og í keppni. Þeir sem keppa á alþjóðlegum mótum geta líka átt von á boðun bæði hér heima og erlendis.

Mikilvægt er að íþróttafólk, þjálfarar þeirra og aðstandendur veiti þessum málaflokki athygli. Falli íþróttamaður á lyfjaprófi getur hann átt yfir höfði sér langvarandi keppnis- og æfingabann, jafnvel þó að lyf hafi ekki verið tekin með ásetning í huga.

Íþróttamenn ættu alltaf að kynna sér vel þau lyf og fæðubótarefni sem þeir taka inn. Ekki eru allir læknar meðvitaðir um lyfjabannlista sem íþróttahreyfingin notar og því þurfa íþróttamenn að fylgjast með sjálfir enda lendir refsingin á þeim ef þeir falla á prófi.

Hægt er að fá undanþágu fyrir notkun ýmissa lyfja ef þau eru nauðsynleg samkvæmt læknisráði. Dæmi um slík lyf eru astmalyf sem margir nota að staðaldri. Sækja þarf um undanþáguna fyrirfram til ÍSÍ keppi menn í efstu deild sinnar íþróttagreinar. Unglingar, öldungar o.fl. sem keppa á lægri stigum þurfa ekki að sækja um undanþágur fyrirfram. Þeir sem keppa á alþjóðlegum mótum þurfa að sækja sérstaklega um undanþágu til BWF en þó ekki fyrir innöndunar astmalyfjum og „glúkokorta" sterum.

Smellið hér til að skoða lyfjavef ÍSÍ með nánari upplýsingum um efni á bannlista, reglur o.fl.

Skrifað 6. janúar, 2009
ALS