Badmintonfólk ársins

Stjórn Badmintonsambands Íslands hefur valið þau Rögnu Ingólfsdóttur og Helga Jóhannesson badmintonfólk ársins 2008. Þau Ragna og Helgi fá viðurkenningu frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands í kvöld ásamt íþróttafólki annarra íþróttagreina. Við sama tækifæri munu Samtök Íþróttafréttamanna krýna Íþróttamann ársins.

Íslandsmeistarar í einliðaleik Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson.

Ragna og Helgi urðu bæði Íslandsmeistarar í einliða- og tvíliðaleik á árinu ásamt því að standa sig vel í alþjóðlegri keppni. Ragna tryggði sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum með glæsilegum hætti og er badmintonfólk á Íslandi einstaklega stolt af henni. Eftirfarandi er stutt ágrip á helstu afrekum badmintonfólks ársins 2008.

Badmintonmaður ársins 2008
Helgi Jóhannesson f. 18.nóvember 1982

Badmintonmaður ársins 2008 er Helgi Jóhannesson úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.
Helgi er tvöfaldur Íslandsmeistari í badminton árið 2008. Hann sigraði í einliðaleik karla í þriðja sinn á ferlinum en hann vann einnig árin 2005 og 2006. Hann sigraði einnig í tvíliðaleik karla ásamt Magnúsi Inga Helgasyni annað árið í röð en þetta var þó fimmti tvíliðaleikstitill Helga.

Landslið Íslands í badminton stóð sig frábærlega á Evrópumóti A-þjóða í badminton sem fram fór í Danmörku í vor. Liðið vann sér þátttökurétt á mótinu með því að sigra Evrópukeppni B-þjóða í Laugardalshöll 2007. Í Danmörku náði íslenska liðið síðan að halda sæti sínu á meðal A-þjóða með því að verða í 13.sæti og vinna meðal annars sögulegan sigur á Finnum. Helgi var einn af máttarstólpunum í liðinu og sigraði í mörgum mikilvægum tvíliða- og tvenndarleikjum.

Á árinu hefur Helgi tekið þátt í fimm alþjóðlegum mótum og staðið sig sérstaklega vel í tvíliðaleik. Hann sigraði ásamt Magnúsi Inga Helgasyni alþjóðleg mót á Kýpur og í Slóvakíu á árinu. Þá náðu þeir félagar 16-liða úrslitum á móti í Írlandi í lok árs. Góður árangur þeirra Helga og Magnúsar hefur skilað þeim miklu stökki upp heimslistann, í byrjun árs voru þeir ekki á listanum en eru nú í sæti 118.

Helgi lék ásamt Tinnu Helgadóttur tvenndarleik á Evrópumótinu sem fram fór í apríl. Þau náðu frábærum árangri saman og komust alla leið í 16-liða úrslit mótsins þar sem allt besta badmintonfólk álfunnar var komið saman til keppni.

Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson

Badmintonkona ársins 2008
Ragna Ingólfsdóttir f. 22.febrúar 1983

Badmintonkona ársins 2008 er Ragna Ingólfsdóttir úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Ragna vann sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í röð í einliðaleik kvenna á árinu 2008. Hún varð einnig Íslandsmeistari í tvíliðaleik kvenna með Katrínu Atladóttur en þetta var þriðji Íslandsmeistaratitillinn þeirra í röð.

Íslenska landsliðið í badminton varð í 13.sæti á Evrópumótinu sem fram fór í Danmörku í apríl og tryggði sér þannig áframhaldandi veru á meðal A-þjóða Evrópu. Ragna var einn af burðarásum liðsins og vann marga mikilvæga leiki, sérstaklega í tvenndarleik með Helga Jóhannessyni.

Ragna tók þátt í sjö alþjóðlegum mótum á árinu 2008. Bestum árangri náði hún í Austurríki þar sem hún komst í undanúrslit en hún náði einnig átta liða úrslitum í Íran og Svíþjóð. Hæðst náði Ragna 53.sæti heimslistans í einliðaleik á árinu þá var hún hæðst í 19.sæti á listanum yfir bestu einliðaleikskonur Evrópu.

Ragna var í 56.sæti heimslistans 1.maí 2008 í einliðaleik kvenna. Sætið tryggði henni þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Kína í ágúst. Draumur Rögnu varð því að veruleika eftir margra ára vinnu og mikið álag. Ragna náði því miður ekki að klára leik sinn í fyrstu umferð badmintonkeppni Ólympíuleikanna vegna meiðsla í hné. Þrátt fyrir að það væri leiðinlegt að ná ekki að klára keppnina þá var jú stærsti sigurinn og mesta vinnan að komast á leikana sjálfa.

Eftir Ólympíuleikana í ágúst fór Ragna í aðgerð til að láta laga slitið krossband í hné. Hún hefur því ekki tekið þátt í alþjóðlegum mótum eftir leikana. Endurhæfing gengur hinsvegar vel og stefnir hún ótrauð á mótaþátttöku í lok næsta árs og Ólympíuleikana í London 2012.

Skrifað 2. janúar, 2009
ALS