Badminton í Vestmannaeyjum

Í Vestmannaeyjum er starfandi eitt af elstu badmintonfélögum landsins, Tennis- og badmintonfélag Vestmannaeyja (TBV). Félagið var stofnað í kringum 1950 og var þar mikil starfsemi á árum áður. Iðkendur tóku reglulega þátt í mótum og heimsóttu önnur félög með keppni í huga. Í kringum 1985 lagðist félagið niður vegna húsnæðiseklu en hefur nú verið endurreist. Hjá félaginu eru skráðir um 80 iðkendur á öllum aldri.

Um helgina fór fræðslustjóri BSÍ í heimsókn til Vestmannaeyja og stýrði fjórum æfingum í 10 valla glæsilegu íþróttahúsi eyjaskeggja. Alls tóku 30-40 manns þátt í æfingunum um helgina. Eyjamenn voru sérstaklega áhugasamir um badmintoníþróttina og tóku vel leiðbeiningum um bætta tækni o.fl. Í myndsafninu hér á síðunni eru nokkrar myndir frá helginni ásamt glæsilegu merki félagsins.

Heimsókn BSÍ til Vestmannaeyja. Brynjar Guðmundsson, formaður, og Óskar Elías Óskarsson, gjaldkeri, ásamt hluta af iðkendum TBV sem tóku þátt í æfingum helgina 6.-7.desember.

Skrifađ 8. desember, 2008
ALS