Helgi og Magnús hafa lokið keppni í Wales

Íslandsmeistararnir í tvíliðaleik karla þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason hafa lokið keppni á alþjóðlega badmintonmótinu Yonex Welsh International sem fram fer í Cardiff þessa dagana.

Í kvöld biðu þeir lægri hlut gegn Walesverjunum Joe Morgan og James Phillips í fyrstu umferð tvíliðaleiks 21-13 og 21-11. Síðast þegar Íslandsmeistararnir mættu Morgan og Phillips sigruðu þeir í jöfnum tveggja lotu leik og því vonir bundnar við að þeir myndu sigra í kvöld en sú varð ekki raunin.

Fyrr í dag töpuðu bæði Helgi og Magnús Ingi í fyrstu umferð einliðaleiks á mótinu. Magnús mætti Hollendingnum Rune Massing og tapaði 21-13 og 21-9. Helgi spilaði þriðja þriggja lotu leik sinn á mótinu í röð þegar hann tapaði fyrir Frakkanum Brice Leverdez. Frakkinn er fyrirfram talinn líklegastur til sigurs á mótinu og því óheppni hjá Helga að mæta honum í fyrsta leik. Fyrstu lotu vann Helgi naumlega 22-20 en næstu tvær tók Leverdez 21-10 og 21-13. Helgi tók þátt í undankeppni mótsins í gær og vann þá þrjá andstæðinga með glæsibrag.

Næst liggur leið þeirra Magnúsar og Helga til Írlands þar sem þeir munu taka þátt í Yonex Irish International Championships. Mótið hefst fimmtudaginn 4.desember næstkomandi.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Skrifað 28. nóvember, 2008
ALS