Helgi og Magnús keppa í Wales

Á morgun fimmtudag hefst alþjóðlega badmintonmótið Yonex Welsh International í borginni Cardiff í Wales. Mótið gefur stig á heimslistann og er jafnframt hluti af Evrópumótaröðinni. Þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason taka þátt í mótinu fyrir Íslands hönd.

Undankeppni mótsins hefst á morgun en þar mun Helgi taka þátt í einliðaleik. Í fyrstu umferð undankeppninnar mætir hann óþekktum Englending, Ben Dolman. Sá hefur ekki tekið þátt í alþjóðlegum mótum undanfarin misseri og því erfitt að spá fyrir um getu hans. Helgi þarf að sigra þrjá andstæðinga í undankeppninni á morgun til að komast áfram í aðal mótið sem hefst á föstudag.

Magnús Ingi Helgason mætir í fyrstu umferð einliðaleiks Hollendingnum Rune Massing. Hollendingurinn er talinn einn af sex bestu leikmönnum mótsins en hann er þriðji besti einliðaleiksmaður síns heimalands og númer 118 á heimslistanum. Magnús Ingi er númer 308 á heimslistanum og því fyrirfram talið ólíklegt að hann komist áfram í aðra umferð mótsins.

Tvíliðaleikur þeirra Helga og Magnúsar Inga hefur gengið mjög vel í haust en þeir sigruðu í alþjóðlegum mótum bæði á Kýpur og í Slóvakíu í október. Það verður spennandi að sjá hvort að þeir ná að fylgja eftir góðum árangri á mótinu um helgina. Í fyrstu umferð mæta þeir heimamönnunum Joe Morgan og James Phillips sem þeir léku einmitt gegn í mótinu á Kýpur í síðasta mánuði. Leikur þeirra á Kýpur var jafn en endaði með sigri Magnúsar og Helga 21-19 og 22-20.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Yonex Welsh International.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Skrifað 26. nóvember, 2008
ALS