Radisson bikarinn

Keppni í Radisson bikarnum hófst í Íþróttahúsinu við Strandgötu í gærkveldi. Radisson bikarinn er liðakeppni sem varð til að frumkvæði Badmintonfélags Hafnarfjarðar fyrir þau félög sem hafa leikmenn í meistaraflokki innan sinna raða. Fjögur lið taka þátt í keppninni í vetur en það eru TBR, KR, ÍA og BH. Leikið er í æfingatímum félaganna heima og heiman.

Fyrsti leikur keppninnar fór fram í gær milli TBR og BH. Lið TBR var að mestu skipað gömlum kempum sem eiga marga tugi landsleikja á bakvið sig eins og Brodda Kristjánssyni, Þorsteini Páli Hængssyni, Vigdísi Ásgeirsdóttur, Katrínu Atladóttur o.fl. Lið BH er hinsvegar að stærstum hluta ungir leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki í vetur. Reynslan vó þungt í leiknum í gær og sigraði TBR liðið viðureignina örugglega 7-1 þrátt fyrir góða spretti Hafnfirðinga á köflum.

Næstu daga eru fleiri leikir í Radisson bikarnum á dagskránni. TBR-ingar fá Skagamenn í heimsókn og Hafnfirðingar fara í Vesturbæinn til KR. Einnig munu KR-ingar sækja Skagamenn heim.

Skrifað 14. nóvember, 2008
ALS