Ver­launum brˇ­urlega skipt

Badmintonsambandið hélt SPRON MÓTIÐ í TBR húsunum um helgina. Keppt var í meistaraflokki og var flest af besta badmintonfólki landsins á meðal keppenda. SPRON MÓTIÐ var haldið í stað Iceland SPRON International sem átti að fara fram þessa sömu helgi en var fellt niður vegna óvissu í efnahagsmálum.

Bræðurnir Helgi og Atli Jóhannessynir mættust í úrslitaleiknum í einliðaleik karla. Eldri bróðirinn og núverandi Íslandsmeistari í einliðaleik karla, Helgi, sigraði nokkuð sannfærandi 21-13 og 21-19. Helgi tapaði ekki lotu í einliðaleik á mótinu um helgina og hafði því nokkra yfirburði yfir aðra þátttakendur.

SPRON MÓTIÐ. Einliðaleikur karla: 1. Helgi Jóhannesson, TBR. 2. Atli Jóhannesson, TBR.

Í einliðaleik kvenna var einn erlendur gestur á meðal þátttakenda, Miriam Gruber frá Austurríki. Miriam er númer 126 á heimslistanum og reynslumikill leikmaður. Hún hefur tekið þátt í mörgum alþjóðlegum mótum undanfarin misseri og náð ágætis árangri. Hún komst meðal annars í undanúrslit á alþjóðlegu móti í Slóvakíu á dögunum. Á mótinu um helgina sigraði Miriam nokkuð örugglega alla andstæðinga sína í einliðaleiknum og tapaði ekki lotu á leið sinni að sigrinum. Í úrslitaleiknum mætti hún Karitas Ósk Ólafsdóttur frá Akranesi og fór viðureign þeirra 21-15 og 21-15.

SPRON MÓTIÐ. Einliðaleikur kvenna: 1. Miram Gruber, Austurríki. 2. Karitas Ósk Ólafsdóttir, ÍA.

Í tvíliðaleik karla voru bræðurnir Atli og Helgi aftur í úrslitum en að þessu sinni léku þeir saman gegn þeim Daníel Thomsen og Bjarka Stefánssyni. Þeir bræður náðu vel saman í tvíliðaleiknum og sigruðu örugglega 21-13 og 21-17.

SPRON MÓTIÐ. Tvíliðaleikur karla: 1. Helgi Jóhannesson og Atli Jóhannesson. 2. Bjarki Stefánsson og Daníel Thomsen (vantar á mynd).

Gömlu landsliðskonurnar þær Elsa Nielsen og Vigdís Ásgeirsdóttir hafa augljóslega engu gleymt þrátt fyrir að hafa lítið tekið þátt í mótum undanfarin ár. Þær stöllur sigruðu í tvíliðaleik kvenna á SPRON MÓTINU um helgina. Í úrslitaleiknum mættu þær systrunum Snjólaugu og Halldóru Elínu Jóhannsdætrum og sigruðu í spennandi þriggja lotu leik 15-21, 21-14 og 21-18.

SPRON MÓTIÐ. Tvíliðaleikur kvenna: 1. Vigdís Ásgeirsdóttir og Elsa Nielsen. 2. Snjólaug Jóhannsdóttir og Halldóra Elín Jóhannsdótir. Ragna Ingólfsdóttir Ólympíufari veitti verðlaunin.

Tvenndarleikurinn á SPRON MÓTINU um helgina var líklega jafnasta grein mótsins og fóru flestir leikir í oddalotu. Í úrslitum mættust bræðurnir Helgi og Atli aftur eins og í einliðaleiknum. Helgi lék með Elínu Þóru Elíasdóttur og Atli með Snjólaugu Jóhannsdóttur. Leikurinn var spennandi og skemmtilegur. Fyrstu lotuna sigruðu Helgi og Elín Þóra 21-17 og aðra lotuna sigruðu Atli og Snjólaug einnig 21-17. Það þurfti því að spila oddalotu til að knýja fram úrslit og þar sigruðu þau Atli og Snjólaug 21-18.

SPRON MÓTIÐ. Tvenndarleikur: 1. Atli Jóhannesson og Snjólaug Jóhannsdóttir, TBR. 2. Helgi Jóhannesson og Elín Þóra Elíasdóttir, TBR.

Það má því segja að þeir Helgi og Atli hafi bókstaflega skipt verðlaunum mótsins í karlaflokki bróðurlega á milli sín en þeir fóru heim með tvo bikara hver. Ólympíufarinn og Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir afhenti verðlaun á mótinu fyrir hönd SPRON en Ragna er nýkomin úr krossbandaaðgerð á hné og gat því ekki keppt sjálf.

SPRON MÓTIÐ. Ólympíufarinn Ragna Ingólfsdóttir að veita verðlaun í einliðaleik karla.

Smellið hér til að skoða úrslit allra leikja á SPRON MÓTINU 2008. Myndir frá verðlaunaafhendingu má finna í myndasafninu hér á síðunni.

Skrifa­ 9. nˇvember, 2008
ALS