Tilkynning frá stjórn Badmintonsambandsins

Í gær sendi stjórn Badmintonsambands Íslands eftirfarandi tilkynningu á aðildarfélög sín og leikmenn landsliðshópa sambandsins:

Stjórn Badmintonsambandsins þykir ástæða til að senda frá sér eftirfarandi tilkynningu til að upplýsa um aðgerðir vegna samdráttarins í efnahagsmálum landsins. Reynt var að boða til fundar með forráðamönnum aðildarfélaga fyrr í vikunni en ekki náðist nægilegur fjöldi til að fundarfært yrði.

Strax á vormánuðum var ljóst að samdráttur yrði í styrkjum og auglýsingatekjum til sambandsins og þess vegna yrði að grípa til sparnaðar. Strax þá var meðal annars ákveðið að BSÍ greiddi engan auka kostnað vegna ferðar á Ólympíuleikana í Peking og ferðaáætlun miðuð við þann ramma sem greiddur var af ÍSÍ. Stjórn BSÍ gat þó á þeim tíma ekki á nokkurn hátt gert sér í hugarlund þær hremmingar sem nú ríða yfir landsmenn alla. Í kjölfarið hefur stjórnin þurft að grípa til ýmissa sparnaðaraðgerða þar sem allar styrkveitingar næsta árs eru í uppnámi. Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til er m.a.:

Iceland SPRON International fellt niður
BSÍ óskaði eftir því við Badmintonsamband Evrópu að fá leyfi til að fella niður verðlaunafé mótsins sem er í dollurum. Því var hafnað og kostnaður við mótið því orðinn sambandinu ofviða.

Landsliðsmál
Ákveðið hefur verið að senda lágmarkslið á EM fullorðinna í febrúar 2009. Einnig hefur verið ákveðið að setja unglingalandsliðsferðir í biðstöðu. Sambandið hefur undanfarið reynt að semja við landsliðsþjálfara sinn um breytingar á samningi en þær viðræður báru því miður ekki árangur. Núverandi ráðningasamningi hefur því verið sagt upp.

Nordisk Kongress
BSÍ hefur í mörg ár tekið þátt í samstarfi við hin Norðurlöndin. Ákveðið var að senda ekki fulltrúa á samráðsfund Norðurlandanna í ár í sparnaðarskyni. Samstarfið er okkur mikilvægt og slæmt að geta ekki tekið þátt í ár. Mjög ánægjulegt er að segja frá því að hinum Norðurlöndunum þótti það líka og buðu Finnar BSÍ því fría hótelgistingu og uppihald á meðan á fundinum stæði ef það gæti hjálpað. Þegar ÍSÍ frétti af því styrktu þeir sambandið um einn flugmiða og formaður BSÍ ætlar sjálfur að greiða annan kostnað úr eigin vasa. BSÍ mun því eiga fulltrúa á þinginu án þess að nokkur kostnaður falli á sambandið.

Útbreiðsla
Stjórn BSÍ hefur þurft að breyta áætlunum sínum gagnvart útbreiðslu badmintoníþróttarinnar. Áætlað var að senda starfsmann í grunnskóla landsins í haust. Vegna samdráttarins hafa verið sett í fyrsta sæti verkefni í útseldri vinnu þangað til annað kemur í ljós.

Eins og allir vita eru þetta erfiðir tímar á okkar fagra landi og mikil óvissa um hvað framtíðin ber í skauti sér. Nú er því nauðsynlegt að standa saman og reyna að mæta öllum breytingum með jákvæðu hugarfari.

Kveðja
f.h. stjórnar Badmintonsambands Íslands
Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir
formaður

Skrifađ 31. oktober, 2008
ALS