Snjólaug og Atli með forystu eftir helgina

Um helgina fór fram í KR heimilinu þriðja mótið á SPRON mótaröð BSÍ þennan veturinn, Óskarsmót KR í tvíliða- og tvenndarleik. Óskarsmótið er haldið til minningar um fyrrverandi formann Badmintondeildar KR og mikinn afreksmann í badminton, Óskar Guðmundsson. Óskar var formaður Badmintondeildar KR frá stofnun deildarinnar árið 1963 til ársins 2002. Óskar varð fimmtán sinnum Íslandsmeistari í badminton og þar af átta sinnum í einliðaleik. Þá lék hann fyrsta landsleik Íslendinga í badminton þegar leikið var við Norðmenn í Laugardalshöll árið 1973.

Frá vinstri Hans Sperre, Óskar Guðmundsson, Haraldur Kornelíusson og Steinar Petersen

Þeir Bjarki Stefánsson og Daníel Thomsen úr TBR sigruðu í tvíliðaleik karla í meistaraflokki um helgina en þær Karitas Ósk Ólafsdóttir og Birgitta Rán Ásgeirsdóttir frá Akranesi í tvíliðaleik kvenna í meistaraflokki. Þá sigruðu þau Atli Jóhannesson og Snjólaug Jóhannsdóttir tvenndarleikinn í meistaraflokki annað mótið í röð. Með sigrinum tryggðu þau Atli og Snjólaug sé forystu á SPRON mótaröðinni.

Atli Jóhannesson og Raul Must (EST)

Í A-flokki karla var Skagamaðurinn Egill Guðlaugsson sigursælastur en hann sigraði í tvíliðaleik með Daníeli Tumasyni og í tvenndarleik með Karitas Evu Jónsdóttur. Egill hefur með góðum árangri um helgina tryggt sér forystu á SPRON mótaröðinni í A-flokki karla en fast á hæla hans kemur TBR-ingurinn Jónas Baldursson. Í A-flokki kvenna er Sigrún María Valsdóttir úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar með forystu á SPRON mótaröðinni.

Smellið hér til að skoða úrslit Óskarsmóts KR í tvíliða- og tvenndarleik. Smellið hér til að skoða stöðu leikmanna á styrkleikalista SPRON mótaraðarinnar 2008-2009.

Skrifað 20. oktober, 2008
ALS