Magnús og Helgi í úrslit í Slóvakíu

Íslandsmeistararnir Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson eru heldur betur í fluggírnum þessa dagana. Þeir unnu tvö sterk pör á alþjóðlega badmintonmótinu HEAD Slovak Open í dag og eru því komnir í úrslit á alþjóðlegu móti aðra helgina í röð.

Í morgun léku þeir í átta liða úrslitum gegn Pólverjunum Lukasz Moren og Michal Rogalski og sigruðu glæsilega 21-19 og 21-17 . Pólverjarnir voru raðaðir númer tvö í mótinu og eru númer 64 á heimslistanum sem gerir sigurinn sérstaklega góðan fyrir þá Magnús og Helga.

Í undanúrslitunum mættu þeir Ales Murn og Aljosa Turk frá Slóvakíu. Fyrstu lotuna unnu Slóvakarnir 21-13 en aðra lotuna unnu íslensku strákarnir 21-11. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit og þar sigruðu Magnús og Helgi örugglega 21-14.

Andstæðingar Íslandsmeistaranna í úrslitaleiknum á morgun eru þeir Jakub Bitman frá Tékklandi og Zvonimir Durkinjak frá Króatíu sem fyrir mótið voru taldir líklegastir til sigurs. Þeir Bitman og Durkinjak eru númer 53 á heimslistanum og því ljóst að leikurinn á morgun verður erfiður fyrir þá Helga og Magnús sem eru númer 197 á sama lista. Miðað við þau lið sem íslensku strákarnir hafa verið að vinna um helgina og á Kýpur um síðustu helgi getur allt gerst í leiknum á morgun.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á HEAD Slovak Open.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Skrifađ 18. oktober, 2008
ALS