Helgi og Magnús Ingi í Slóvakíu

Landsliðsmennirnir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason sem sigruðu svo glæsilega í tvíliðaleik á alþjóðlegu móti á Kýpur um síðustu helgi eru nú komnir til Slóvakíu. Á morgun fimmtudag hefst þar keppni á alþjóðlega badmintonmótinu HEAD Slovak Open. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og gefur stig á heimslistann.

Undankeppni mótsins fer fram á morgun en þar bítast keppendur um að komast inní aðal mótið sem hefst á föstudag. Helgi leikur í undankeppninni í einliðaleik karla og mætir í fyrsta leik Tékkanum Vaclav Benbenek. Leikurinn hefst kl. 11.00 að íslenskum tíma. Til að komast áfram úr undankeppninni þarf Helgi að sigra þrjá andstæðinga og fara leikirnir allir fram á morgun. Takist Helga að sigra alla andstæðingana þrjá á morgun mætir hann í aðal mótinu á föstudag Austurríkismanninum Heimo Gotschl sem talin er meðal átta bestu leikmanna mótsins.

Magnús Ingi Helgason komst beint inní aðal mótið í einliðaleik og þarf því ekki að taka þátt í undankeppninni á morgun. Hann mætir í fyrstu umferð á föstudag kl. 8.45 Vitaly Konov frá Úkraínu. Ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um Konov og því má búast við nokkuð opnum leik hjá þeim Magnúsi á föstudag.

Í tvíliðaleik mæta þeir Magnús Ingi og Helgi Maksim Martynenko og Mykola Shkliaiev frá Úkraínu. Það verður spennandi að sjá hvort að íslensku strákunum tekst að fylgja eftir góðum árangri á Kýpur um síðustu helgi.

Smellið hér til að skoða niðurröðun og fylgjast með gangi mála á HEAD Slovak Open.

Skrifađ 15. oktober, 2008
ALS